Leikur helgarinnar: Framfarir Fjarðabyggðar dugðu ekki gegn Hetti – Myndir

fotbolti kff hottur kvk juli14 0005 webKvennalið Fjarðabyggðar hefur tekið umtalsverðum framförum eftir því sem á hefur liðið sumarið. Þær dugðu samt ekki til að hafa stig af Hetti í Austfjarðaslag liðanna á Norðfjarðarvelli á fimmtudagskvöld.

Höttur vann tvo stórsigra á Fjarðabyggð í vor, fyrst 0-5 í bikarkeppni og síðan 11-0 í deild. Þeir sigrar hefðu mögulega getað orðið stærri en á fimmtudaginn sýndi Fjarðabyggð aðra leiki.

Liðið hafði sjálfstraust til að halda boltanum, sem er nokkuð sem þjálfarinn Nik Chamberlain hefur lagt áherslu á síðan hann tók við liðinu í byrjun maí.

Höttur átti samt bestu færin í fyrri hálfleik. Á nítjándu mínútu tók Magdalena Reimus vel á móti boltanum inni á vítateig en skaut framhjá. Tveimur mínútum síðar skaut Alexandra Sveinsdóttir í þverslá eftir að varnarmönnum Fjarðabyggðar mistókst að koma skoppandi boltanum í burtu.

Undir lok fyrri hálfleiks kom besta færi Fjarðabyggðar í leiknum eftir hornspyrnu en marktilraunin hitti ekki á rammann.

Höttur tekur stjórnina

Helsti styrkleiki Hattarliðsins felst í öflugum miðjumönnum sem taka völdin þar og stjórna síðan leiknum. Sá styrkleiki kom betur í ljós eftir því sem á leið leikinn og strax á fyrsti mínútu seinni hálfleiks sýndi gestaliðið mátt sinn þegar sóknarmaður þess slapp inn fyrir en skaut yfir.

Á 60 mínútu fékk Alexandra dauðafæri en skalli hennar af markteig hitti ekki á rammann.

Fyrsta markið kom sex mínútum síðar. Magdalena fékk boltann uppi í vinstra horninu, snéri bakvörðinn af sér með því að setja boltann aftur fyrir sig með hæl og snúa sér við. Með því komst hún upp að endamörkum þar sem hún sendi frábæra sendingu fyrir beint á kollinn á Fanney Kristinsdóttur á fjærstönginni.

Þremur mínútum síðar átti Fjarðabyggð ágæta marktilraun þegar markvörður Hattar misreiknaði háa aukaspyrnu frá miðju en boltinn sigldi framhjá stönginni fjær.

Höttur gerði út um leikinn á 82. mínútu þegar Kristín Inga Vigfúsdóttir komst í gegn eftir gott spil í vítateigsboganum og kláraði færið snyrtilega.

Höttur fékk færi úr skyndisókn og aukaspyrnu í vítateigsboganum til að bæta við mörkum en þau komu ekki.

Þora orðið að spila boltanum

Í samtali við Austurfrétt eftir leikinn sagðist Nik ánægður með þær framfarir sem Fjarðabyggðarliðið hefði sýnt. „Mér fannst við betri í fyrri hálfleik en okkur vantaði þol og hæfni í lokin.

Liðið hefur sýnt miklar framfarir frá því í vor. Við skiptum um leikaðferð og þær skilja orðið betur hreyfingarnar inni á vellinum. Ég hef líka reynt að byggja upp sjálfstraust þannig að leikmennirnir þori að halda boltanum og spila honum á sín á milli."

Sigríður Baxter, þjálfari Hattar, var ósátt við leik síns liðs í fyrri hálfleik en sagði hann hafa batnað verulega í þeim seinni.

„Við vorum ekki með hausinn rétt skrúfaðan á í byrjun en spiluðum mjög vel í seinni hálfleik þegar við náðum að setja hápressu á þær . Við hefðum viljað skora fleiri mörk en það er gott að vinna eftir að hafa gert þrjú jafntefli við lakari lið í síðustu leikjum."

Höttur er í öðru sæti B-riðils fyrstu deildar kvenna með 18 stig úr átta leikjum en Fjarðabyggð er í því sjöunda með fjögur stig.

Fjarðabyggð og Leiknir efst hjá körlunum

Fjarðabyggð er í efsta sæti annarrar deildar karla eftir 3-2 sigur á Reyni Sandgerði á Eskifirði á laugardag. Gestirnir komust yfir strax á tíundu mínútu með marki úr víti og í 0-2 með marki fyrir leikhlé. Nik Chamberlain minnkaði muninn á 52. mínútu, Brynjar Jónasson jafnaði á 77. mínútu og Tadas Jocys tryggði heimamönnum sigurinn á 90. mínútu, tveimur mínútum eftir að hann kom inn á sem varamaður.

Huginn er í fjórða sæti eftir 2-2 jafntefli við Njarðvík á útivelli. Aaron Palomares og Alvaro Calleja Alvaro skoruðu mörk Hugins í seinni hálfleik eftir að liðið lenti 2-0 undir.

Í þriðju deild vann Einherji KFR 1-0 á Vopnafirði á laugardag. Sigurður Donys Sigurðsson skoraði sigurmarkið á 29. mínútu. KFR spilaði annan leik í ferðinni við Hött á sunnudag á Fellavelli og vann þá 1-2. Elvar Þór Ægisson minnkaði muninn úr vítaspyrnu á 82. mínútu.

Leiknir er í efsta sæti deildarinnar með 17 stig úr átta leikjum, Höttur í fjórða sæti með 14 stig úr 9 leikjum og Einherji í sjöunda sæti með 12 stig úr tíu leikjum.

fotbolti kff hottur kvk juli14 0000 webfotbolti kff hottur kvk juli14 0009 webfotbolti kff hottur kvk juli14 0011 webfotbolti kff hottur kvk juli14 0015 webfotbolti kff hottur kvk juli14 0019 webfotbolti kff hottur kvk juli14 0020 webfotbolti kff hottur kvk juli14 0029 webfotbolti kff hottur kvk juli14 0042 webfotbolti kff hottur kvk juli14 0047 webfotbolti kff hottur kvk juli14 0049 webfotbolti kff hottur kvk juli14 0060 webfotbolti kff hottur kvk juli14 0064 webfotbolti kff hottur kvk juli14 0084 webfotbolti kff hottur kvk juli14 0087 webfotbolti kff hottur kvk juli14 0090 web

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.