Leikur helgarinnar: Jafntefli í toppslag annarrar deildar
ÍR og Fjarðabyggð mættust í toppbaráttu helgarinnar í 2. deild karla í knattspyrnu á Eskifirði á laugardag. Tíðindalaus leikurinn endaði með 2-2 jafntefli.Leikurinn byrjaði eins og flestir leikir, hann rúllaði af stað, tíðindalítill.
Á 18. mínútu braut Sveinn Fannar Sæmundsson af sér á stórhættulegum stað fyrir ÍR, með því fylgdi gult spjald. Reynir Magnússon tók aukaspyrnu sunnanstrákanna og boltinn söng í neti heimamanna. Staðan orðin 0-1, ÍR í vil.
Á 29. mínútu komst Fjarðabyggð í stórsókn. Í hamagangnum var brotið á Tommy Nielsen í teignum, sem skilaði sér í vítaspyrnu. Brynjar Jónasson fór á punktinn og þrumaði boltanum í hægra hornið af gríðarmiklu öryggi. Markmaður ÍR manna fór illa að ráði sínu, og skutlaði sér í vitlaust horn. Staðan orðin jöfn, 1-1.
Skömmu síðar, á 33. mínútu áttu ÍR-ingar skyndisókn. Fjarðabyggð sofnuðu á verðinum og Jón Gísli Ström kom sunnanstrákum yfir á nýjan leik. Staðan orðin 1-2, ÍR í vil.
Í hálfleik skiptu Fjarðabyggð Fannari Árnasyni af velli, en í staðinn kom Víkingur Pálmason.
Leikurinn hélt áfram, jafn tíðindalítill og fréttablað gærdagsins.
Á 84. mínútu brutu ÍR-ingar á heimamönnum á eitruðum stað. Víkingur Pálmason, sem inná kom í hálfleik, tók spyrnuna, sem sveif yfir varnarvegginn, og söng í netinu. Fjarðabyggð jafnaði leikinn 2-2.
Síðustu mínútur leiksins einkenndust af miklum hamagangi, en bæði lið rembdust við að skora, en árangurinn var lítill. Einu tíðindi voru þau að ÍR-ingurinn Jón Gísli Ström fékk á sig gult spjald á 89. mínútu eftir arfaslaka tæklingu við miðjuna.
Stuttu seinna var flautað til leiksloka.