Knattspyrna: Mikilvægur sigur Hattar á Einherja

einherji hottur juni14 0169 webHöttur og Einherji áttust við í grannaslag í 3. deild karla í knattspyrnu á Vilhjálmsvelli í gær. Veður var fínt og stemmningin var góð. Mikill fjöldi Vopnfirðinga fylgdi sínum mönnum til Egilsstaða. Leikurinn var mikilvægur fyrir bæði lið enda Höttur í baráttu um sæti í 2. deild og Einherji að reyna að forðast fall.

Leikurinn byrjaði nokkuð fjörlega og áttu Hattarmenn tvö færi snemma leiks. Leikurinn róaðist þó fljótlega og ljóst að hvorugt liðið ætlaði sér að tapa þessum mikilvæga leik.

Höttur náði þó forystunni á 19. mínútu leik með marki úr vítaspyrnu. Elvar Þór Ægisson átti þá langt innkast inní teig og eftir einhvern barning í teignum var dæmd vítaspyrna. Elvar Þór fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi.

Leikurinn var frekar rólegur eftir þetta og var fátt um færi það sem eftir lifði hálfleiks.

Einherjamenn voru þó ekki hættir og jöfnuðu eftir 69 mínútna leik. Þeir fengu þá horspyrnu sem rataði inní teiginn og eftir baráttu í teignum var dæmd vítaspyrna. Sigurður Donys Sigurðsson fór á punktinn og jafnaði leikinn. Hann fagnaði vel með þeim fjöldamörgu Vopnfirðingum sem að fylgdu liðinu til Egilsstaða og smellti einum kossi á Einherjamerkið á treyjunni sinni.

Staðan var því 1-1 og ljóst að bæði liðin þurftu á sigri að halda. Það var þó ekki að sjá á leiknum og virtust bæði lið vera frekar róleg.

Leikurinn breyttist loks eftir tvöfalda skiptingu hjá Hetti á 84. mínútu. Bragi Emilsson og Marteinn Gauti Kárason komu þá inná völlinn og voru aðeins búnir að vera inná í nokkrar sekúndur þegar Bragi fékk boltann útá kanti keyrði inní teiginn og lét vaða úr þröngu færi, markmaður Einherja átti í erfiðleikum með að halda boltanum og Marteinn Gauti mætti og skóflaði honum yfir línunna.

Þetta reyndist vera sigurmarkið og þrjú mikilvæg stig í toppbaráttunni hjá Hetti. Einherji eru hins vegar dottnir í næst neðsta sæti deildarinnar þremur stigum á eftir ÍH en eiga þó tvo leiki til góða á þá.

Leiknismenn, sem eru á toppi deildarinnar fóru til Grenivíkur og sigruðu Magna 2-0 með mörkum frá Marc Ferrer úr víti og Hilmari Frey Bjartþórssyni. Leiknismenn eru með þriggja stiga forystu á Hött og leik til góða.

Í annarri deild karla gerð Fjarðabyggð markalaust jafntefli við Dalvík Reyni á útivelli. Huginn vann svo dramatískan sigur á Aftureldingu þar sem Milos Ivankovic skoraði sigurmarkið á 91. mínútu. Aron Palomares skoraði fyrra mark Hugins.

Kvennalið Hattar vann 4-0 stórsigur á Völsungi í B-riðli fyrstu deildar kvenna. Magdalena Reimus skoraði tvö mörk fyrir Hött en Kristín Inga Vigfúsdóttir og Fanney Kristinsdóttir komust einnig á blað. Fjarðabyggð tekur svo á móti Sindra á Norðfjarðarvelli í kvöld.

Mynd: Örn Björnsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar