Blak: Kvennaliðið byrjar vel

Þróttur HK

Kvennalið Þróttar Neskaupstað er ósigrað og efst í fyrstu deild kvenna í blaki eftir fyrstu þrjár umferðarnar á Íslandsmótinu. Karlaliðið tapaði hins vegar báðum leikjunum í borgarferðinni um síðustu helgi.

Kvennaliðið byrjaði á HK á föstudagskvöld og vann þar 1-3 (15-25, 25-19, 25-27 og 20-25). Lauren Laquerre var stigahæst með 22 stig en Hulda Elma Eysteinsdóttir skoraði 19.

Á laugardag vann Þróttur Fylki í Árbænum 0-3 (20-25, 10-25 og 14-25). Hulda Elma skoraði þar 20 stig og Erla Rán 18.

Kvennaliðið er í efsta sæti deildarinnar með fullt hús stiga, 9 stig, eftir þrjár umferðir og eina lið deildarinnar sem ekki hefur tapað leik. Liðið hefur einnig byrjað á erfiðum andstæðingum, HK og Aftureldingu sem voru helstu keppinautarnir í fyrra. Liðið tekur næst á móti Ými 3. október.

Karlaliðinu gekk ekki jafn vel. Liðið spilaði einnig við Íslandsmeistara HK á föstudag en tapaði 3-0 (25-13, 25-20 og 25-20). Valgeir Valgeirsson var þar stigahæstur með átta stig.

Á laugardag lék liðið gegn hinu þrælsterka liði Stjörnunnar í Garðabæ og tapaði í oddahrinu (25-23, 16-25, 22-25, 25-22 og 15-13).

Liðið leikur næst gegn KA á heimavelli 10. nóvember.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar