Takmarkanir á umferð í kringum Tour de Orminn
Hjólreiðakeppnin Tour de Ormurinn verður haldin í þriðja sinn á morgun. Upphaf og endir keppninnar verður að þessu sinni í miðbæ á Egilsstaða. Takmarkanir verða á umferð þar af þeim sökum.Björn Ingimarsson, bæjarstjóri á Fljótsdaldshérði, ræsir keppendur klukkan 9:00 við söluskálann á Egilsstöðum. Keppendur hjóla frá Egilsstöðum yfir í Fellabæ og þaðan upp Fell.
Við Hengifoss skilja leiðir. Þeir sem fara styttri hringinn, sem er 68 km, hjóla austur yfir nýju brúna yfir Jökulsá í Fljótsdal en þeir sem fara lengra, 103 km fara innst inn í Norðurdal áður en þeir fara yfir brúna þar og hjóla út eftir eins og aðrir í gegnum Hallormsstað og Velli.
Merktir bílar fara á undan og eftir hjólamönnum en vegfarendur eru beðnir að gæta varúðar á þessum slóðum fyrri part laugardags. Þá verður umferð á Egilsstöðum takmörkuð í miðbænum í ræsingu og á meðan keppendur skila sér í markið.
Búist er við að keppendur í styttri hringnum skili sér í markið fyrir hádegi en besti tíminn í fyrra var 2:30. Besti tíminn í lengri hringnum í fyrra var 3:49 klukkustundir.