Knattspyrna: Þrjú lið berjast um Launaflsbikarinn

launaflsbikar2013 urslit mani spyrnir 0031 webSpyrnir, UMFB og Boltafélag Norðfjarðar eiga öll möguleika á sigri í bikarkeppni UÍA og Launafls. Tíunda og síðasta umferð keppninnar fer fram á morgun.

Borgfirðingar standa með pálmann í höndunum, en þeir eru efstir með fimmtán stig úr sjö leikjum. Þeir komust loks á toppinn eftir áttundu umferð þegar þeir unnu Spyrni 3-2 á Borgarfirði í svokölluðum Bræðsluleik. Sigurinn var dramatískur þar sem sigurmarkið var skorað í uppbótartíma.

Á morgun heimsækja þeir Val á Reyðarfirði sem er neðst í fimm liða deildinni án stiga og með um 30 mörk í mínus.

Ekki er einu sinni víst að Borgfirðingar þurfi að vinna sinn leik því hin liðin tvö sem geta haft af þeim bikarinn mætast innbyrðis. Endi leikur Spyrnis og BN á Fellavelli með jafntefli vinnur UMFB bikarinn hvort sem er.

Liðin eru jöfn í 2.–3. sæti með 13 stig. Hvernig sem allt fer þá verður Hrafnkell Freysgoði í fjórða sæti keppninnar en liðið hefur lokið keppni með 12 stig.

Austfirsku liðin í Íslandsmótinu eiga líka mikilvæga leiki um helgina. Höttur tekur á móti Grundarfirði klukkan 18:00 en liðin berjast um annað sæti þriðju deildar. Topplið Leiknis tekur á móti KFR klukkan 19:00. Grundfirðingar halda áfram för sinni og spila við Einherja á Vopnafirði klukkan 14:00 á sunnudag.

Í fyrstu deild kvenna tekur Fjarðabyggð á móti KR klukkan 19:00 í kvöld á Norðfiðri. KR spilar svo gegn Hetti klukkan 14:00 á sunnudag.

Í annarri deild karla tekur Fjarðabyggð á móti Aftureldingu klukkan 14:00 á morgun. Á sama tíma hefst leikur Hugins og Sindra á Hornafirði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar