Knattspyrna: Öruggur sigur KR á Fjarðabyggð
Fjarðabyggð tók á móti KR í 1. deild kvenna B-riðli á Norðfjarðarvelli í gærkvöldi kvöld í frábæru veðri, sól, logn og 15 stiga hita. KR var fyrir leikinn með átta stiga forystu í deildinni og gátu með sigri aukið forskot sitt í 11 stig sem og þær gerðu því þær unnu leikinn 1 – 4.Fjörið byrjaði strax á fimmtu mínútu en þá skoraði Margrét María Hólmarsdóttir fyrsta markið. Hún var aftur á ferðinni fjórum mínútum síðar og kom gestunum í 2 – 0.
Byrjunin var því ekki góð hjá heimastúlkum en þær tóku sér tak og komu sér inn í leikinn á ný með góðu spili og áttu nokkur færi. Það var svo Carina Spengler sem skorði svo glæsilegt mark á 25. mínútu og minnkaði muninn í 1 - 2.
Reyðfirðingurinn og fyrirliði KR, Sonja Björk Jóhannsdóttir skorði svo með skalla eftir hornspyrnu á 27. mínútu þriðja mark KR og staðan því 1-3 í hálfleik.
Í síðari hálfleik varðist Fjarðabyggð vel og fékk nokkur hálffæri en á 80. mínútu bætti Elísabet Guðmundsdóttir við marki eftir hornspyrnu og barning í teignum og breytti því stöðunni í 1 – 4 fyrir KR. Þrátt fyrir tapið þá áttu Fjarðabyggðarstelpur góðan leik og greinilega má sjá batamerki á liðinu.
Mynd: Jón Guðmundsson