Knattspyrna: Reynismenn sandaðir á Seyðisfjarðarvelli
Leikur Hugins og Reynis Sandgerði fór fram á nokkuð undarlegum tíma, klukkan 17 á þriðjudegi. Ástæðan mun vera sú að Reynismenn þurftu að ná flugi suður, en sú flugferð hefur varla verið þægileg þar sem að þeir voru flengdir af heimamönnum.Strax ljóst hvort liðið væri betra
Leikurinn var ekki nema fimm mínútna gamall þegar að hinn hæfileikaríki Alvaro Montejo Calleja nýtti sér mistök í vörn Reynis og skoraði.
Leikurinn allur var opinn og mikið af færum, aðalega þó í teig gestanna. Þegar um tuttugu mínútur voru búnar komst Rúnar Freyr Þórhallsson nærri því að auka forskot heimamanna en flugskalli hans eftir góða aukaspyrnu Marco Nikolic fór framhjá markinu.
Á 25. mínútu leiksins gerði Seyðfirðingurinn Birkir Pálsson sig sekan um mistök þegar að hann tapaði boltanum í vörninni til Þorsteins Þorsteinssonar sem þakkaði fyrir sig með því að skora og jafna leikinn.
Þegar um hálftími var liðinn gerði Alvaro sig líklegan en skot hans úr þröngu færi var ágætlega varið. Á 37 mínútu náðu svo heimamenn að komast yfir, Marco átti þá aukaspyrnu af hægri kanti sem Kristján Smári Guðjónsson skallaði að marki, skallinn var varinn en Pétur Óskarsson, nýr leikmaður Hugins, var mættur í frákastið og ýtti boltanum yfir línuna 2-1.
Akkúrat mínútu eftir mark Péturs átti hann frábæra sendingu inn á Alvaro sem gerði allt rétt, fór framhjá markmanni Reynis og skoraði 3-1 en gestirnir réðu akkúrat ekki neitt við Alvaro sem að fór hamförum í leiknum.
Hrannar Bogi Jónsson fékk svo fínt færi til að minnka muninn fyrir Reynismenn rétt fyrir hálfleik en skot hans fór framhjá.
Það sama upp á teningnum í seinni hálfleik
Seinni hálfleikur var opinn en Huginn varðist betur þegar á reyndi auk þess að vera mun betri fram á við. Það sýndi sig strax, því ekki voru búnar nema tvær mínútur af seinni hálfleik þegar Marco skoraði. Alvaro hafði þá átt skot úr þokkalegu færi sem fór í varnarmann og barst út á vinstri kant, þar var Marco sem að skaut boltanum fast og lágt í nærhornið. Ágætis skot en markmaður Reynis, Rúnar Gissurarson átti engu að síður að gera betur.
Þorsteinn Þorsteinsson komst svo einn í gegn á 55. mínútu en Atli Gunnar Guðmundsson varði mjög vel í marki heimamanna.
Besta en jafnfram síðasta mark leiksins gerði síðan Alvaro Calleja á 58. mínútu. Markið kom eftir glæsilega sókn þar sem að Pétur setti Marco inn fyrir með frábærri sendingu, Marco var óeigingjarn og renndi boltanum yfir á Alvaro sem að náði með því þrennunni sívinsælu.
Síðasta hálftímann skiptust liðin á hálffærum en besta færið fékk Alvaro þegar að hann setti boltann yfir í mjög góðu færi eftir góða sendingu Arons Palomares.
Flott sumar á Seyðisfirði
Eftir leikinn sitja Huginn í þriðja sætinu sem verður að teljast mjög vel gert. Brynjar Skúlason þjálfari þeirra hefur gert einstaklega vel í að krækja í sterka leikmenn til þess að styrkja lið sitt í sumar og má þar nefna Marco, Milos Ivankovic og auðvitað Alvaro Calleja sem jafnframt var að mati undirritaðs maður leiksins.
Þá má ekki gleyma því að heimastrákarnir hafa spilað vel í sumar og á Hugins liðið hrós skilið.
Fjarðabyggð vann auðveldan sigur á Völsungi í kvöld 1-4 og situr í 2. sæti með 37 stig, tíu stigum meira en Huginn.