Unglingalandsmót á Fljótsdalshéraði 2017

ulm 2014 0328 webUnglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Fljótsdalshéraði árið 2017. Þetta var tilkynnt við setningu mótsins á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina. Ríflega 80 keppendur voru þar skráðir til leiks á vegum UÍA.

Mótið var síðast haldið á Héraði árið 2011 en verður nú haldið á ný, og sem fyrr undir nafni UÍA í samstarfi við sveitarfélagið Fljótsdalshérað. Búist er við að um tíu þúsund gestir sæki mótið.

Unglingalandsmót UMFÍ var fyrst haldið á Dalvík árið 1992 og því verður mótið á Héraði 25 ára afmælismót. Við bætist að það verður hið tuttugasta í röðinni, en mótin voru fyrstu árin haldin á tveggja ára fresti en eru nú haldin á hverju ári.

Næst verður mótið á Akureyri og síðan í Borgarnesi. Auk Fljótsdalshéraðs sóttu Dalvík, Þorlákshöfn og Selfoss um að halda mótið.

UÍA átti eitt stærsta liðið á mótinu í ár. Alls voru keppendur um 1500 talsins, þar af ríflega 80 að austan.

Margir keppendur sambandsins náðu frábærum árangri í ýmsum greinum. Sem dæmi má nefna tvöfaldan sigur systranna Jóhönnu Malenar og Ragnhildar Elínar Skúladætra í upplestri og þar varð Mikael Máni Freysson í öðru sæti á eftir Jóhönnu í eldri flokki. Jóhanna og Máni hlutu einnig verðlaun í annarri starfsíþrótt, stafsetningu.

Í sundi náði Hubert Henryk Wojtas bestum árangri en hann sigraði í 100 metra bringusundi 13-14 ára drengja og komst á pall í fleiri greinum.

Á frjálsíþróttavellinum unnust þrenn gullverðlaun. Halla Helgadóttir sigraði í 600 metra hlaupi 13 ára stúlkna og Hrefna Ösp Heimisdóttir í 800 metra hlaupi 16-17 ára stúlkna, en þar varð Hekla Liv Maríasdóttir í öðru sæti. Steingrímur Örn Þorsteinsson sigraði í langstökki 14 ára pilta og þar varð Daði Þór Jóhannsson í þriðja sæti.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar