Leikur helgarinnar: Leiknir skrefi nær annarri deild eftir stórsigur á Vopnafirði - Myndir
Leiknir Fáskrúðsfirði færðist nær sæti í annarri deild karla í knattspyrnu með sanngjörnum 0-4 sigri á Einherja á Vopnafirði í gærkvöldi. Heimamenn eru hins vegar komnir í bullandi fallbaráttu.Ekki tók nema 24 sekúndur að skora fyrsta markið. Löng sendin kom í gegnum miðja vörn Einherja sem Hilmar Freyr Bjartþórsson elti uppi og lyfti snyrtilega yfir Guðmund Ragnar Vignisson í marki heimamanna.
Markið var sem löðrungur í andlit heimamanna sem voru lengi að jafna sig og áttu Leiknismenn tvær góðar marktilraunir á fyrstu tíu mínútunum sem aðallega fóru fram á vallarhelmingi Einherja.
Baldur Smári Elfarsson fékk dauðafæri á 17. mínútu eftir að Guðmundur Ragnar rann til þegar hann ætlaði að hreinsa í burtu stungusendingu. Baldur Smári elti sendinguna uppi niður að endamörkum en færið var orðið heldur þröngt þannig hann skaut í stöng.
Á 18. mínútu átti Einherji sína fyrstu alvöru sókn og upp úr henni kom horn. Spyrnan datt niður í teiginn fyrir fætur Sigurðar Donys en hann skaut yfir. Þá átti Bjarki Björnsson skot hægra megin úr teignum beint í fang Björgvins Snæs Ólafssonar í marki Leiknis tveimur mínútum síðar.
Yfirburðir Leiknismanna
Það voru samt Leiknismenn sem réðu lögum og lofum í fyrri hálfleik. Þriggja manna vörn Einherja var framarlega og á köntunum nægt pláss. Leiknismenn komu boltunum upp á Björgvin Stefán Pétursson og Hilmar sem héldu uppi áætlunarferðum.
Oftast voru sóknirnar þannig að boltinn barst upp í hægra hornið á Björgvin Stefán sem gaf fyrir þar sem Baldur Smári og Hilmar Freyr skiptust á að klúðra færunum. Það gerðu þeir á 31. mínútu. Tíu mínútum fyrr hafði skalli Marc Lladosa Ferrer eftir hornspyrnu dottið ofan á þverslá Einherjamarksins en varnarmönnunum tókst síðan að hreinsa.
Á 36. mínútu tók Carlos Monleon á rás frá miðju og sólaði sig í gegnum Einherjaliðið upp að vítateignum vinstra megin. Þar sendi hann boltann fyrir á Baldur Smára á nærstönginni sem skallaði boltann í netið og kom Leiknismönnum í 0-2.
Leiknismenn gátu helst svekkt sig á því að vera ekki með meira forskot eftir fyrri hálfleik því nægar voru sóknirnar. Leikurinn róaðist í seinni hálfleik. Einherjamönnum tókst ekki að ná tökum á leiknum til að skapa sér færi og á meðan gátu gestirnir verið rólegir.
Rólegri seinni hálfleikur
Sigurður Donys fékk skallafæri á 64. mínútu en skalli hans var varinn. Tíu mínútum síðar kom Marc Ferrer Leikni í 0-3 þegar boltinn féll fyrir hann eftir klafs í teignum eftir hornspyrnu.
Fjórða markið kom síðan á 87. mínútu þegar hinn ungi og efnilegi Valdimar Ingi Jónsson, sem náð hafði hornspyrnunni sem skilaði þriðja markinu, komst á flug upp hægri kant, lék inn á vítateig og skoraði með skoti í nærhornið.
Sigurður Vopni Vatnsdal fékk dauðafæri fyrir Einherja í uppbótartíma þegar hann vann boltann af varnarmanni og komst einn á móti varnarmanni en hikaði of lengi og Björgvin Snær varði skot hans í horn.
Úr horninu var dæmd óbein aukaspyrna á Einherjamenn fyrir óíþróttamannslega framkomu þegar Bjartur Aðalbjörnsson snerti boltann en þóttist ekki hafa leikið honum og Sigurður Donys kom aðvífandi niður í hornbogann til að leika boltanum út úr honum.
Ólíkt hlutskipti í deildinni
Leiknismenn eru í efsta sæti deildarinnar með 32 stig eftir 13 leiki, níu stigum frá Berserkjum í þriðja sæti en toppliðin eiga öll fimm leiki eftir. Leikur liðsins í kvöld geislaði af sjálfstraustið og stórsigur þeirra var fyllilega verðskuldaður, einkum eftir yfirburði í fyrri hálfleik.
Liðið er með markatöluna 43-17 sem þýðir að liðið hefur skorað hátt í fjögur mörk í leik en aðeins fengið á sig rúmlega eitt. Leiknismenn hafa bæði skorað langflest mörk í deildinni og fengið á sig fæst.
Einherji er hins vegar í næst neðsta sæti með 13 stig. Liðið hefur skorað langfæst mörk, aðeins 16 en vörnin hefur verið í meðallagi. Af því að horfa á Einherjaliðið verður helst sú ályktun dregin að Vopnfirðingar eigi ekki nógu góða fótboltamenn, sérstaklega ekki miðjumenn sem geta stutt við framherjana þótt leikur liðsins sé í heildina skipulagður, leikmenn líkamlega sterkir og baráttuglaðir.
Liðið hefur fjóra leiki til að bjarga sér frá falli niður í fjórðu deild á ný en möguleikarnir eru fyrir hendi þar sem litlu munar á liðunum í 6. – 9. sæti.