Fjarðabyggð á toppinn í 2. deild eftir sigur á Njarðvík: Hefðum átt að jarða þá í seinni hálfleik - Myndir

fotbolti kff njardvik 18082014 0003 webFjarðabyggð náði efsta sætinu í annarri deild karla í knattspyrnu eftir 3-0 sigur á Njarðvík á Eskifjarðarvelli og er nú aðeins hársbreidd frá því að tryggja sér sæti í fyrstu deild. Þrátt fyrir góðan sigur hefði þjálfarinn viljað sjá meiri ákveðni í liðinu.

Emil Stefánsson skoraði fyrsta markið á 21. mínútu og Stefán Þór Eysteinsson jók forustuna rétt fyrir hálfleik.

Undarlegt atvik átti sér stað skömmu áður. Aðstoðardómari leiksins dæmdi markspyrnu en dómarinn tók ekki eftir bendingu hans og lét leikinn halda áfram þangað til að Stefán Þór skoraði mark. Þá loks tókst aðstoðardómaranum að ná sambandi við dómarann sem fyrir rest dæmdi markspyrnuna og markið ógilt.

Það kom hins vegar ekki að sök þar sem Stefán Þór skoraði aftur úr næstu sókn. Brynjar Jónasson bætti svo við þriðja marki Fjarðabyggðar eftir klukkutímaleik. Fleiri urðu mörkin ekki þrátt fyrir fjölda færa Fjarðabyggðar í lokin.

Brynjar Gestsson, þjálfari Fjarðabyggðar, sagði sigurinn hafa verið „tiltölulega þægilegan" og helst hefði hann viljað fá fleiri mörk fá sínu liði.

„Við hefðum átt að jarða þá í seinni hálfleik. Það er eins og menn séu sáttir í stöðunni 3-0 og þyki í lagi að klikka á hverju dauðafærinu á eftir öðru.

Hvað ef við fáum ekki 10-15 færi í leik? Við verðum að vera vægðarlausari og taka allt sem okkur er gefið. Það er drápseðli að vinna 3-0 en það vantaði að menn héldu áfram."

Brynjar minnir í þessu samhengi á að mikil samkeppni sé um sæti í liðinu og hann hiki ekki við að breyta sigurliði ef hann telji menn ekki standa sig.

„Þú ert ekki sjálfkrafa í liðinu í næsta leik ef þú spilar illa þótt liðið vinni 3-0. Ég breyti sigurliði ef ég þarf og hef gert það margoft.

Við erum með 18 manna hóp þar sem allir eru heilir sem þýðir að ég úrval á bekknum af hungruðum mönnum. Þeir eru ekkert sáttir við að sjá leikmenn inn á að skokka síðustu 15 mínúturnar. Ég hefði viljað sjá örlítið meira."

Liðið er efst með 40 stig og tók í gær fram úr Gróttu sem tapaði 2-0 fyrir Ægi í Þorlákshöfn. ÍR komst í þriðja sætið með 4-3 sigri á Huginn.

Heimamenn komust í 1-0 en Marko Nikolic skoraði á 44. og 45. mínútu og kom Huginn yfir fyrir leikhlé. Friðjón Gunnlaugsson kom Seyðfirðingum í 1-3 áður en varnarmaður þeirra varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark og minnka muninn í 2-3. ÍR-ingar skoruðu tvö mörk um kortéri fyrir leikslok og unnu þannig leikinn.

Fjarðabyggð mætir næst Gróttu á útivelli og svo Fjallabyggð heima áður en röðin kemur að Austfjarðaslag á Seyðisfirði. Fjarðabyggð þarf að vinna tvo leiki til viðbótar til að tryggja sætið í fyrstu deild.

„Þetta er ekki búið á meðan við eigum Gróttu og Huginn eftir og þurfum enn tvo sigra. Hver leikur skiptir máli og við tökum bara eitt skref í einu."

Bæði lið Hattar unnu um helgina. Karlaliðið vann Magna á Grenivík 2-0 með mörkum Arons Gauta Magnússonar og Braga Emilssonar í seinni hálfleik og heldur þar með öðru sæti deildarinnar á eftir Leikni Fáskrúðsfirði.

Kvennaliðið vann Sindra 3-0 með tveimur mörkum frá Magdalenu Reimus og einu frá Oddnýju Karólínu Hafsteinsdóttir. Öll mörkin voru skoruðu í fyrri hálfleik. Höttur á í baráttu við Þrótt Reykjavík um annað sæti riðilsins sem veitir sæti í úrslitakeppninni. Höttur á leik til góða en er fjórum stigum á eftir sem þýðir að liðið verður að treysta á að Þróttur tapi stigum á lokasprettinum.

fotbolti kff njardvik 18082014 0016 webfotbolti kff njardvik 18082014 0020 webfotbolti kff njardvik 18082014 0023 webfotbolti kff njardvik 18082014 0031 webfotbolti kff njardvik 18082014 0035 webfotbolti kff njardvik 18082014 0039 webfotbolti kff njardvik 18082014 0044 webfotbolti kff njardvik 18082014 0050 webfotbolti kff njardvik 18082014 0058 webfotbolti kff njardvik 18082014 0063 webfotbolti kff njardvik 18082014 0068 webfotbolti kff njardvik 18082014 0076 webfotbolti kff njardvik 18082014 0086 web

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.