Safnað fyrir Daða Fannar á síðasta greinamóti sumarsins
Allur ágóði af síðasta greinamóti sumarsins í frjálsíþróttum rennur til frjálsíþróttamannsins Daða Fannars Sverrissonar sem slasaðist alvarlega í bílslysi fyrir skemmstu. Meðal annars verður keppt í furðufataboðhlaupi.Mótið er það þriðja og síðasta í mótaröð UÍA og Hitaveitu Egilsstaða og Fella og hefst á Vilhjálmsvelli klukkan 18:00 í kvöld.
Keppt verður í sleggjukasti, þrístökki, 60/80/100/110 m grindahlaupi og 200 m hlaupi í flokkum 11 ára, 12-13 ára, 14-15 ára og 16 ára og eldri.
Að auki verður boðið uppá keppni í 4x100 m boðhlaupi í blönduðum kynja- og aldursflokkum. Boðhlaupið gildir ekki til stiga en þarf verða veitt verðlaun fyrir þá sveit sem þykir skarta frumlegustu og flottustu búningunum.
Þátttökugjald á mótið er 500 krónur og rennur það óskipt til Daða Fannars Sverrissonar, frjálsíþróttakappa með meiru, en hann slasaðist illa í bílslysi fyrir skemmstu. Hægt verður að skrifa, bata- og baráttukveðjur til Daða og fjölskyldu hans, í þar til gerða bók sem verður á staðnum.
Fyrir þá sem ekki eiga heimangengt á mót en vilja engu að síður leggja Daða Fannari lið má benda á að stofnaður hefur verið styrktarreikningur fyrir hann og fjölskyldu hans 0175-05-070500 kt 220772-3229.
Þá verður annað mót haldið á sama tíma á morgun fyrir tíu ára og yngri en það er kennt við lukkudýrið Sprett Sporlanga.