Ólafur Bragi varði heimsmeistaratitilinn í torfæru

oli bragi heimsmeistari webÓlafur Bragi Jónsson, akstursíþróttamaður í START, Fljótsdalshéraði, varði um helgina heimsmeistaratitil sinn í torfæruakstri en mótið fór fram á Akureyri. Þá vann hann einnig fimmtu og sjöttu umferð Íslandsmótsins sem haldin var um leið.

„Þetta var mjög spennandi keppni þar sem við skiptumst á forustunni. Þrautirnar voru oft erfiðar, sérstaklega þegar rigndi á laugardaginn þegar brautirnar urðu blautar," segir Ólafur Bragi.

Hann varð efstur í NEZ heimsbikarkeppninni með 3399 stig en Snorri Þór Árnason varð annar með 3250. Níu erlendir ökuþórar mættu til leiks í keppninni, þar af þrír í flokki Ólafs Braga sem keppir í flokki sérútbúinna bíla

Keppnin stóð í tvo daga og var um leið fimmta og sjötta umferð Íslandsmótsins í torfæru. Ólafur Bragi var efstur eftir fyrri daginn en hann og Snorri Þór skiptust á forustunni þar til að kom að síðustu þraut dagsins, tímaþrautinni þar sem Ólafur Bragi varð fljótari.

Seinni daginn veitti Ingólfur Guðvarðarson honum harða keppni og eftir að Ólafi Braga hafði hlekkst á í næst síðustu braut og hlotið fjölda refsistiga hafði Ingólfur yfirhöndina. Hann velti hins vegar í tímaþrautinni sem Ólafur Bragi keyrði af öryggi og tryggði sér þar með sigurinn.

Ólafur Bragi vann þar með síðustu tvær umferðirnar í Íslandsmótinu sem voru þær einu sem hann var með í í sumar. Þá varði hann heimsbikarinn sem hann vann í Noregi í fyrra. Hann fór alls heim með fjóra bikara því ein tilþrifaverðlaun bættust í safnið.

Hann segist þakklátur aðstoðarmönnum sínum fyrir vinnu helgarinnar. „Ég held að ég hafi ekki tapað keppni á bílnum síðan 2010 og aðstoðarmennirnir voru búnir að græja hann þannig hann myndi þola tveggja daga álag. Ég velti á laugardaginn en snör viðbrögð þeirra hjálpuðu mér aftur af stað."

Óvíst er þó hvort heimsmeistarinn geri atlögu að þriðja titlinum í röð. „Keppnin verður haldin erlendis á næsta ári og það hvort maður fari veltur á hvort styrktaraðilar finnist til ferðarinnar."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar