Davíð Snorri: Við erum ekki sloppnir

Davið Snorri leiknir höttur vilhjámlsvöllur

Davíð Snorri Jónasson, annar þjálfara Leiknis Reykjavík, leyfði sér að fagna 2-3 sigri á Hetti á Vilhjálmsvelli í fallslag fyrstu deildar karla í knattspyrnu í dag. Gestirnir virtust samt halda báðum fótum á jörðinni og gera sér vel grein fyrir að enn er leikur eftir.

„Mér líður vel og strákunum líður vel. Við gerðum það sem við komum til að gera,“ sagði Davíð Snorri í samtali við Austurfrétt eftir leikinn í dag.

„Við vissum að þetta yrði erfiður leikur. Það skal enginn segja mér annað en Hattarliðið sé gott. Það er vel þjálfað og spilar vel úr sínum styrkleikum.

Til að vinna það þarftu að berjast, vinna fyrsta bolta, staðsetja þig vel þegar annar boltinn lendir og tryggja loks boltann, annað hvort með að halda honum eða fara í skyndisókninni. Það var það sem við unnum í í vikunni og mér fannst þetta ganga upp hjá okkur í dag.“

Treystir dómaranum

Leiknismenn fengu óskabyrjun þegar Samuel Petrone skoraði strax á fimmtu mínútu. Annað markið kom í byrjun seinni  hálfleiks þegar hreinsun Gunnars Einarssonar sveif einhvern vegin yfir Vejlko Bajkovic í Hattarmarkinu. Leikurinn virtist búinn þegar Leiknismenn komust í 0-3 eftir skyndisókn um miðjan hálfleikinn.

Leikurinn breyttist hins vegar þegar Óskari Hrannari Kristjánssyni var vísað af velli fjórum mínútum fyrir leikslok. Leikmaður Hattar skallaði boltann í hönd Óskars, sem stóð við stöngina með höndina næstum upp við líkamann.

Atvikið sást ógreinilega frá bekknum og sagðist Davíð Snorri fáa kosti eiga aðra en treysta dómgreind Erlendar Eiríkssonar, dómara.

„Ég er fyrst og fremst ósáttur við að við vinnum ekki fyrsta boltann. Leikmaðurinn var með höndina upp við líkamann og ég veit ekki hvort hann beitti henni. Hér var hins vegar besti dómari landsins og ég verð að treysta honum. Ég velti samt fyrir mér hvað gerðist, miðað við viðbrögð leikmannsins, sem er yfirleitt þokkalega yfirvegaður,“ sagði Davíð en Óskar viðhafði afar áköf mótmæli.

Völdu réttu leiðina í lokin

Elvar Ægisson minnkaði muninn úr vítinu og við tók stórsókn Hattar sem endaði með marki Friðriks Þráinssonar á 92. mínútu. Nær komust Hattarmenn ekki.

Davíð segist lítið hafa óttast jöfnunarmarkið og telur að reynsla Breiðholtsliðsins hafi nýst því í uppbótartímanum.

„Við töluðum um að þegar á reyndi í leiknum þá hefðum við reynsluna. Þrátt fyrir hana misstum við næstum forskotið niður. Það er vandasamt að vera yfir og einum færri en við völdum réttu sendingarnar. Ég var ekki hræddur um að þeir myndu jafna leikinn því mér fannst við standa okkur vel í lokin.“

Þetta snýst um okkur

Þegar Davíð er spurður að því hvort Leiknismenn séu sloppnir svarar hann strax: „Nei, við erum ekki sloppnir. Við erum ekki sloppnir fyrr en þetta er búið.“

Leiknir komst með sigrinum í dag upp fyrir Hött. Einu stigi munar á liðunum. Höttur heimsækir deildarmeistara Þórs á Akureyri eftir viku meðan Leiknismenn taka á móti nágrönnum sínum í ÍR í Breiðholtinu en grannarnir eru fallnir.

„Menn tala um að við eigum auðveldan leik gegn ÍR en ÍR-ingar mæta ekki á Leiknisvöllinn til annars en vinna. Ég geri ráð fyrir að Þórsarar séu líka ákveðnir í að eiga góðan leik og taka á móti dollunni. Við getum bara spilað okkar leik, þetta snýst um okkur.“ 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar