Leiknir og Höttur staðfesta að þau séu bestu lið þriðju deildarinnar með þriggja marka sigrum á Berserkjum

einherji hottur juni14 0107 webBerserkir komu austur í blíðuna þessa helgina til þess eins að láta sigra sig tvisvar á 24 tímum.
Leiknismenn héldu hreinu á Búðagrund

Á laugardaginn spiluðu Berserkir á móti efsta liði deildarinnar, Leikni Fáskrúðsfirði. Fyrsta mark leiksins kom upp úr hornspyrnu á 18. mínútu og skráir KSÍ það á Fannar Bjarka Pétursson. Markið var markmanni Berserkja að kenna en hann glutraði boltanum úr höndunum á sér, niður á línu þar sem varnarmaður Berserkja hreinsaði boltann upp í andlitið á sér og inn. Virkilega ljótt mark en það skiptir víst engu máli. Leiknir höfðu ágætis tök á fyrri hálfleik og voru líklegri en það var helst að Marteinn Briem væri að valda þeim einhverjum vandræðum.

Í seinni hálfleik var svo það sama upp á teningnum en á 65. mínútu skoraði Marc Ferrer þegar hann braust í gegnum vörn gestanna og ýtti boltanum yfir línuna. Síðasta en jafnframt fallegasta mark leiksins kom svo þremur mínútum síðar en þá átti Hilmar Bjartþórsson fína aukaspyrnu vinstra megin við teig í nærhornið.

Niðurstaðan varð því 3-0 sigur og gott lið Leiknis spilar í annari deild á næsta ári.

Auðvelt hjá Hetti í mígandi rigningu

Fyrir leikinn hafði Höttur unnið alla sex leikina síðan að Gulli Guðjónsson tók við stjórn liðsins. Með sigri gátu Hattarar tryggt sér sæti í annari deild og var gaman að geta fengið tækifæri til þess að gera það á heimavelli, rétt eins og Leiknir deginum fyrr.

Berserkir mættu stirðir til leiks á Vilhjálmsvelli og það tók Hattarmenn átta mínútur að skora en það gerði Bragi Emilsson eftir laglega sendingu Brynjars Árnasonar. Veðrið var ógeðslegt en spilamennska Hattar var glæsileg, einn allra besti leikur sumarsins hjá þeim og var alltaf klárt hvort liðið myndi taka stigin þrjú. Högni Helgason skoraði á 41. mínútu en fyrir það hefði Höttur getað verið búnir að skora nokkur mörk með smá heppni.

Seinni hálfleikur var varla byrjaður þegar að Marteinn Briem skoraði fyrir Berserki. Við tóku tíu mínútur þar sem að Berserkir gerðu ágæta tilraun til þess að koma til baka en Brynjar Árnason slökkti á vonum þeirra með aukaspyrnumarki á 56. mínútu. Markið hefði getað verið endursýning á marki Hilmars fyrir Leikni.
Síðasta mark leiksins skoraði síðan Aron Gauti Magnússon og sanngjarn 4-1 sigur staðreynd.

Leiknir og Höttur upp. Einherji niður?

Þegar að tvær umferðir eru eftir af þriðju deildinni verður spennandi að sjá hvort að dollan fari til Fáskrúðsfjarðar eða til Egilsstaða. Einu stigi munar á liðunum en Leiknir eru með miklu betra markahlutfall ef út í það fer. Leiknir á tvo heimaleiki eftir gegn Víði og Magna en Höttur þarf að fara tvisvar suður til þess að keppa við Grundarfjörð og ÍH.

Sama hvort liðið fer upp þá óskar undirritaður báðum liðum til hamingju með árangur sumarsins, glæsilegt.

Þó að það sé allt í blóma hjá þessum tveimur liðum þá er útlitið ekki nógu gott hjá Vopnfirðingum. Einherji tapaði dýrmætum stigum gegn ÍH í dag. Einherji leiddi 0-1 fram til 85 mínútu. Tvö mörk á síðustu mínútum leiksins þýddu hinsvegar að Einherji tapaði leiknum 2-1 og fóru við það í fallsæti en liðið fyrir ofan þá er einmitt ÍH. Hrikalega dýrt tap.

Einherji er með 16 stig í níunda sætinu en ÍH hafa aftur á móti 18 stig í áttunda. Sem betur fer fyrir Einherja eiga þeir tvo leiki eftir en ÍH einn, Vopnfirðingar fá Víði í heimsókn um næstu helgi og enda svo mótið á heimsókn til Berserkja. Það er ljóst að Vopnfirðingar breytast í Hattar stuðningsmenn í síðustu umferðina en þá mæta Hattarar einmitt ÍH í Hafnarfirði.

Vonandi bjargar Einherji sér, það er enn í þeirra höndum.

Mynd: Hattarmenn eru á uppleið en Einherji er enn í vanda. GG

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar