Knattspyrna: Fjarðabyggð tryggði sér deildarmeistaratitilinn

fotbolti kff huginn 04072014 0093 webFjarðabyggð tryggði sér um helgina sigur í annarri deild karla með 1-1 jafntefli við Huginn í Austfjarðaslag. Höttur tók toppsætið af Leikni í þriðju deild og Einherji komst upp úr fallsæti.

Brynjar Jónasson kom Fjarðabyggð yfir á 37. mínútu úr vítaspyrnu sem dæmd var á klaufalegt brot Huginsmanna. Blazo Lalevic jafnaði fyrir Huginn á 58.  mínútu með glæsiskoti utan vítateigs eftir sendingu frá vinstri frá Friðjóni Gunnlaugssyni.

Á sama tíma tapaði Grótta sem er í öðru sæti og getur því ekkert lið náð Fjarðabyggð. Grótta hefur tapað þremur leikjum í röð og er aðeins tveimur stigum á undan ÍR en efstu tvö liðin komast upp um deild.

Huginn er í fjórða sæti fjórum stigum með Gróttu og á enn möguleika á að komst upp en til þess þarf mikið að ganga á í síðustu tveimur umferðunum.

Þrenna Garðars Más Grétarssonar kom Hetti í efsta sæti þriðju deildar en liðið vann Grundarfjörð á útivelli 2-3. Heimamenn komust í 2-0 um miðjan fyrri hálfleik en Garðar minnkaði munninn á 41. mínútu. Garðar bætti við svo við á 76. og 81. mínútu.

Stigi á eftir Hetti er nú Leiknir sem um helgina gerði 2-2 jafntefli við Víði á heimavelli. Hilmar Freyr Bjartþórsson og Sólmundur Aron Björgólfsson skoruðu mörk Leiknis sem jafnaði í 1-1 og komst síðan yfir 2-1 í stuttan tíma um miðjan seinni hálfleik.

Á laugardag héldu Víðismenn á Vopnafjörð og mættu þar heimamönnum í banastuði. Gunnlaugur Bjarnar Baldursson, Kristófer Einarsson og Eiríkur Páll Aðalsteinsson komu Einherjamönnum í 3-0 fyrir leikhlé og þeir Sigurður Donys Sigurðsson og Hákon Guðni Hjartarson bættu við tveimur mörkum í 5-2 sigri.

Með sigrinum komst Einherji stigi upp fyrir ÍH. Vopnfirðingar mæta Berserkjum í lokaumferðinni um næstu helgi en vonast líka eftir greiða frá Hattarmönnum sem heimsækja Hafnfirðingana. Leiknir lýkur tímabilinu á heimavelli gegn Magna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar