Haka-dansandi Hattarmaður á HM

everard bartlett 2007Nýsjálendingar vöktu nokkra athygli á Heimsmeistaramótinu í körfuknattleik sem stendur nú yfir á Spáni. Fyrrverandi leikmaður Hattar fékk að spreyta sig á móti NBA stjörnum.

Lið Nýja-Sjálands komst í 16-liða úrslit mótsins þar sem þeir töpuðu naumlega gegn Litháen. Einn af leikmönnum liðsins er Everard Bartlett, en hann er austfirskum körfuknattleiksunnendum af góðu kunnur eftir að hann lék með Hetti veturinn 2007-08.

Bartlett var einn af þremur Nýsjálendingum sem komu austur þennan vetur, en hann kom með þjálfarnum Jeff Green og auk þeirra lék miðherjinn Ben Hill með liðinu, eins og hann gerði reyndar líka veturinn á eftir.

Liði Hattar gekk upp og ofan þennan vetur en Bartlett, sem var aðeins 21 árs gamall, fór oft mikinn í leikjum liðsins og skoraði að meðaltali 28,1 stig í 16 leikjum.

Hannibal Guðmundsson sem lék með Bartlett hjá Hetti segir hann hafa verið gríðarlega góðan. „Þetta var toppnáungi. Ljúfur og góður drengur í alla staði. Hann var gríðarlega snöggur, með mikinn sprengikraft og rosalegur háloftafugl. Það var mjög skemmtilegt að horfa á hann.“

Bartlett stóð sig nokkuð vel á HM, en hans besti leikur var gegn Úkraínu þar sem hann skoraði 14 stig og tók 4 fráköst, með framlag upp á 19. Hann skoraði einnig 9 stig á móti Bandaríkjamönnum, en átti annars erfitt uppdráttar, enda þar að glíma við leikmenn á borð við Derrick Rose, James Harden og Stephen Curry.

Nýsjálenska landsliðið í rugby hefur lengi haft þann sið að dansa fyrir leiki sína svonefndan Haka-dans, sem er hefðbundinn stríðsdans Maóra sem voru frumbyggjar landsins. Landslið í öðrum greinum hafa farið að fordæmi rugby kappanna og hér að neðan má sjá körfuknattleikslandsliðið reyna að slá ótta í brjóst NBA stjarna Bandaríkjanna. Okkar maður dró ekki af sér við dansinn, en Bartlett er númer 5.



Okkur er ljúft og skylt að geta þess að það voru vinir okkar á www.karfan.is sem áttuðu sig á því að Bartlett væri meðal leikmanna á HM og frá þeim fengum við lánaða fyrirsögnina, sem var of góð til að nota ekki aftur. Frétt þeirra má lesa hér.

Mynd: Everard Bartlett á fullri ferð með Hetti gegn Haukum 2007 - GG

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.