Hvort hampar Leiknir eða Höttur deildarmeistaratitlinum?

leiknir kff fotbolti 14092013 0164 webAnnað hvort Höttur eða Leiknir mun hampa deildarmeistaratitlinum í þriðju deild karla í knattspyrnu á morgun á sama tíma og örlög Einherja í deildinni ráðast. Fjarðabyggð tekur á móti deildarmeistaratitli annarrar deildar.

Höttur náði toppsætinu um síðustu helgi af Leiknismönnum sem hafa hangið á því stóran hluta sumarsins. Fáskrúðsfirðingum hefur hins vegar aðeins fatast flugið að undanförnu, meðal annars eftir að þeirra helsti markaskorari, Kristófer Páll Viðarsson, meiddist.

Hattarmenn lentu í ókyrrð á miðri leið í sumar en hafa unnið alla sína leiki frá því Gunnlaugur Guðjónsson tók við liðinu um miðjan júní.

Leiknismenn taka á móti Magna á Búðagrund á morgun en Hattarmenn heimsækja ÍH í Hafnarfirði.

Hattarleikurinn gæti haft áhrif á örlög Einherja sem er í þriðja neðsta sæti, stigi meira en ÍH. Einherjamenn fara suður og mæta liðinu í þriðja sæti, Berserkjum. Auk stigsins er Einherji með sjö mörk umfram ÍH í markahlutfall þannig að ólíklegt er að ÍH dugi jafntefli gegn Hetti nema tilkomi stórtap Einherja.

Fjarðabyggð tekur á móti deildarmeistaratitlinum í annarri deild að loknum leik liðsins gegn Sindra á Norðfjarðarvelli á morgun. Liðið hefur átt frábært tímabil, aðeins tapaði einum leik og er með níu stiga forskot á toppi deildarinnar.

Huginn heimsækir Völsung á Húsavík. Seyðfirðingar eiga enn langsótta möguleika á að fylgja Fjarðabyggð upp um deild tapi Grótta og ÍR báðum leikjunum sem liðin eiga eftir.

Allir leikirnir hefjast klukkan 14:00.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.