Knattspyrna: Hattarmenn fagna titlinum í þriðju deild

hottur meistari 3deild atiHöttur tryggði sér í dag sigurinn í þriðju deild karla í knattspyrnu með 0-1 sigri á ÍH í Hafnarfirði. Leikurinn hafði mikla þýðingu fyrir bæði lið, Höttur gat tryggt sér sigurinn í deildinni með því að ná í þrjú stig og ÍH gátu með sigri mögulega komist upp fyrir Vopnfirðinga og bjargað með því sæti sínu deildinni.

Fyrri hálfleikur var virkilega tíðindalítill. Hattarmönnum gekk illa að halda boltanum niðri og ná upp spili.

Dómari leiksins leyfði mikla hörku og töluverður æsingur var í heimamönnum og þá sérstaklega fyrirliða þeirra, sem vildi meina að Anton Ástvaldsson fengi ítrekað að komast upp með óleyfileg fangbrögð í varnarleiknum.

Besta færi hálfleiksins féll Hattarmönnum í skaut. Þá náðu þeir góðri sókn þar sem boltinn gekk hratt upp hægri vænginn og féll síðan fyrir fætur Friðriks Inga Þráinssonar en skot hans fór beint á markvörðinn.

Víti og rautt

Síðari hálfleikur var ekki heldur mikið fyrir augað. Verkefni Hattarmanna varð öllu auðveldara á 50. mínútu þegar miðvörður ÍH varði skalla Antons meistaralega á marklínu með hendinni og fékk að sjálfsögðu rautt spjald, auk þess sem Hattarmenn fengu vítaspyrnu. Jovan Kujundzic steig á punktinn og skoraði af öryggi.

Eftir þetta stjórnuðu Hattarmenn ferðinni án þess þó að skapa sér teljandi færi. Brynjar Árnason átti góða aukaspyrnu af löngu færi sem markvörður ÍH blakaði frá samskeytunum á síðustu stundu. Annað kemur ekki upp í hugann.

Heimamenn í ÍH reyndu eins og þeir gátu að skora og gera atlögu að því að bjarga sæti sínu deildinni. Þeir komust þó lítt áleiðis og Hattarmenn stóðust öll þeirra áhlaup.

Undir lokin áttu Hattarmenn hraða sókn og varamaðurinn Bjarni Þór Harðarson kom knettinum í netið eftir sendingu Elvars Þórs Ægissonar en línuvörðurinn var á þeirri skoðun á Bjarni hefði verið rangstæður og markið stóð því ekki.

Það skipti þó litlu máli, því örfáum sekúndum síðar flautaði dómarinn til leiksloka og Hattarmenn fögnuðu sigri í 3. deild. Þetta var níundi sigurleikur Hattar í röð, sem verður að teljast ansi gott.

Heiðursvörður við heimkomuna

Geir Þorsteinsson formaður KSÍ afhenti Hattarmönnum bikarinn og Högni Helgason fyrirliði liðsins lyfti honum hátt í loft upp fyrir framan fjölmarga stuðningsmenn Hattar sem lögðu leið sína í Kaplakrika í dag.

Lítill tími gafst þó í fagnaðarlæti, vegna þess að liðið var að verða of seint í flug. Það verður eflaust hægt að fagna betur í kvöld og langt fram á nótt.

Fagnaðarlætin byrjuðu um leið og liðið lenti um klukkan sex á Egilsstöðum því sprautað var sigurboga úr slökkvibílunum á flugvellinum yfir flugvélina. Þá stóðu yngri iðkendur heiðursvörð er liðið gekk inn í flugstöðina enn í keppnisbúningunum.

Hattarliðið vann níu leiki í röð eftir að Gunnlaugur Guðjónsson tók við stjórninni á miðju tímabili. Í síðustu viku fór liðið fram úr Leikni Fáskrúðsfirði sem endaði í öðru sæti stigi á eftir.

Leiknismenn tóku á móti Magna frá Grenivík í dag og unnu 5-1. Björgvin Stefán Pétursson skoraði fjögur mörk og Ævar Valgeirsson eitt.

Einherjamenn héldu sæti sínu, bæði þar sem ÍH tapaði en einnig þar sem þeir luku keppni með markalausu jafntefli gegn Berserkjum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar