Boccia er ekki íþrótt heldur trúarbrögð: Íslandsmótið hafið á Seyðisfirði
Alls eru 193 keppendur skráðir til leiks á Íslandsmótinu í einliðaleik í boccia sem hófst á Seyðisfirði í morgun. Spilað verður í sjö deildum í kvöld og á morgun.„Ef þú kemur hérna seinni part laugardags þegar úrslitin eru í gangi þá kemstu að því að boccia er ekki íþrótt heldur trúarbrögð," segir Jón Björn Ólafsson hjá Íþróttasambandi fatlaðra.
Það eru félagsmenn Viljans á Seyðisfirði sem eru gestgjafar mótsins að þessu sinni en það var síðast haldið þar árið 2005.
„Boccianefnd sambandsins tekur við skráningum og raðar í riðla en við þurfum að skaffa um fjörtíu manns til að vera dómarar og ritarar og merkja vellina," segir Unnur Óskarsdóttir, formaður Viljans.
Keppni hófst klukkan níu í morgun og spilað er á tólf völlum til klukkan tíu í kvöld. Keppni hefst aftur klukkan níu í fyrramálið og stendur til um klukkan þrjú. Mótinu lýkur með lokahófi þar sem verðlaun eru afhent.
Þungamiðjakeppninnar verður í sal íþróttahússins á Seyðisfirði en keppendur gista þar og á Egilsstöðum. Mótið var sett í gærkvöldi og marseruðu fulltrúar félaganna inn á völlinn við það tilefni.