Blak: Tímabilið hjá karlaliðinu byrjaði með hörkuleikjum

blak throttur hk okt13 kk 0047 webKarlalið Þróttar í blaki hóf vertíðina í úrvalsdeild með tveimur hörkuleikjum á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Kvennaliðið tapaði báðum leikjum sínum gegn Aftureldingu.

Karlaliðið mætti Þrótti Reykjavík í Laugardalshöll á föstudagskvöld. Austfirðingarnir byrjuðu vel og náðu strax góðri forystu og stöðunni 1-8 og vann hrinuna þægilega, 17-25.

Reykjavíkurliðið rankaði við sér og veitti meiri mótspyrnu í annarri hrinunni en Austfirðingarnir unnu hana og staðan 20-25.

Reykjavíkurliði hélt þó áfram að styrkjast en Austfirðingarnir voru í basli og leikurinn sveiflukenndur. Þróttur jafnaði með að vinna þriðju hrinu 25-20, þá fjórðu 25-22 og leikinn með að vinna oddahrinuna 15-11.

Hlöðver Hlöðversson, þjálfari Norðfjarðarliðið, segir sína menn hafa farið í „afar kalda sturtu til að koma hausnum í stand fyrir næsta verkefni.

Uppgjafir okkar voru alls ekki nógu sterkar og móttakan ekki alltaf nægilega hnitmiðuð. Það varð til þess að sóknir okkar urðu fyrirsjáanlegar og ekki nógu beittar. Andstæðingarnir vörðust á móti afar vel."

Kalda sturtan virðist hafa borið árangur en Norðfjarðarliðið mætti Stjörnunni í Garðabæ í hádeginu á laugardag. Lið Stjörnunnar hefur verið afar sigursælt síðustu ár og sló Þrótt út í undanúrslitum Íslandsmótsins í fyrra.

Stjarnan vann fyrstu hrinuna 25-17 en Þróttur svaraði með tveimur 26-28 sigrum í röð. Stjarnan vann fjórðu hrinuna 27-25 en Þróttarstrákar höfðu taugarnar í oddahrinuna og unnu hana 10-15.

„Þegar keppt er við Stjörnumenn þýðir ekkert annað en að setja allt í botn og var tekin um það lýðræðisleg ákvörðun að allir okkar manna myndu spila langt yfir getu," segir Hlöðver um leikinn sem hann lýsir sem gríðarlegum baráttuleik.

Uppgjafirnar hafi ekki verið nógu góðar í fyrstu hrinu en smám saman hafi þær batnað og valdið heimamönnum talsverðum vandræðum. Betri vörn hafi myndað grunn að fjölbreyttari sóknarleik.

„Sterkar sóknir skiluðu sínu hlutverki vel þrátt fyrir góðar blokkir andstæðinganna og blokkir og lágvarnir allan tímann sterkar. Það mætti ætla að fimm hrinu leikur kvöldið áður hafi verið góð upphitun fyrir leikinn því hvergi var hægt að greina þreytumerki okkar manna á þessum tímapunkti.

Sterkur og samheldinn leikur okkar manna skilaði sigri í oddahrinunni og leiknum. Þetta var frábær sigur í gríðarlega skemmtilegum og spennandi leik og brostu menn því afar breitt þegar haldið var heim á leið."

Kvennaliðinu gekk hins vegar ekki jafn vel en það lék við Aftureldingu í Mosfellsbæ en liðin mættust í úrslitum Íslandsmótsins í fyrra. Afturelding vann báða leikina örugglega, 3-0.

Á föstudagskvöld fóru hrinurnar 25-15, 25-12 og 25-22. en á laugardag 25-14, 25-8 og 25-23.

Þróttarliðin leika síðan heimaleiki 24. og 25. október.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.