Þrír Austfirðingar taka þátt í EM í hópfimleikum

fimleikar em14 steinar valdis kristinn webÞrír Austfirðingar taka þátt í Evrópumótinu í hópfimleikum sem hefst í Laugardalshöll í dag. Einn þeirra hefur dvalist í Reykjavík undanfarinn mánuð við æfingar. Móðir hans segir landsliðsverkefnin hafa reynt töluvert á fjölskylduna.

Iðkendurnir þrír koma upphaflega allir úr Hetti en tveir þeirra, Valdís Ellen Kristjánsdóttir og Stefán Berg Ragnarsson, eru í framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu og æfa þar.

Sá þriðji, Kristinn Már Hjaltason, er fæddur árið 2000 og æfir með Hetti. Æfingar fyrir mótið hafa kostað mikil ferðalög fyrir bæði Kristinn og fjölskyldu hans en hún varði sumarfríinu í Reykjavík.

Dagbjört Kristinsdóttir móðir hans segir fjölskylduna hafa sniðið sumarfríið að æfingunum í júlí. Púsluspilið hafi hins vegar hafist fyrir alvöru þegar fríið var búið en síðan hefur Kristinn verið á flakki á milli Egilsstaða og Reykjavíkur. Framan af hafi hann dvalist hjá ættingjum en síðan hafi foreldrar liðsfélaga hans tekið hann að sér.

Ferðirnar hafa verið vikulegar þannig að Kristinn hefur yfirleitt farið á fimmtudegi og komið aftur á mánudagsmorgni. Nokkrum æfingum hefur hann sleppt því álagið var orðið heldur mikið og þjálfarar liðsins sýndu því skilning.

Þann 20. september flaug hann svo suður og verður þar fram yfir mótið. Þá er faðir hans, Hjalti Bergmar Axelsson, með honum í borginni síðustu tvær vikurnar fyrir mót.

Dagbjört segir það krefjast „gríðarlegs skipulags og vinnu" að vera foreldri afreksbarns í íþróttum á landsbyggðinni. Flugfar til borgarinnar þurfi að panta með góðum fyrirvara til að ná sem hagstæðustum kjörum en ferðakostnaður fjölskyldunnar í tengslum við landsliðsverkefnin hleypur á hundruðum þúsunda króna.

Þakklát fyrir stuðninginn

Fimleikasambandið hefur ekki burði til að styrkja krakkana í landsliðinu til ferðalaga. Inni í ferðakostnaðinum er til dæmis æfingaferð til Danmerkur í sumar sem kostaði 150 þúsund krónur.

Krakkar af landsbyggðinni hafa heldur ekki verið áberandi í landsliðum sambandsins til þessa og það þurfti einnig að læra nýja hluti. „Þegar farið var út lagði hann viku fyrr af stað heldur en aðrir. Sambandið þurfti að átta sig á að við þurftum að vita hlutina með meiri fyrirvara, til dæmis hvað hann þyrfti að taka með sér. Í hans tilfelli var ekki hægt að stökkva heim og sækja hluti," segir Dagbjört.

Dagbjört segist þakklát fyrir stuðning bæði skólayfirvalda og þjálfara landsliðsins. „Það hefur alltaf verið skýrt frá okkar hendi að við myndum ekki hika við að draga hann út úr hópnum ef við sæjum neikvæð áhrif á hann eða námið.

Hann er búinn að vera í íþróttum það lengi að hann hefur lært að skipuleggja saman íþróttirnar og skólann. Við funduðum með skólastjóra og umsjónarkennara og niðurstaðan var sú að hann myndi læra heima, fylgja áætlunum og vera í tölvusamskiptum við kennarana. Það hefur alveg gengið eftir.

Landsliðsþjálfararnir hafa sýnt honum skilning og slaka með mætingar á æfingar. Einn þeirra bauðst meira að segja til að leyfa honum að gista þegar við vorum í vandræðum. Við höfum verið í miklu samband við þá og þeir verið sveigjanlegir og yndislegir."

Keppni hefst klukkan fimm í dag og keppt er á fimmtudag, föstudag og laugardag. Mótið er sýnt beint út á RÚV en hægt verður að fylgjast með mótinu á stórum skjá í Sláturhúsinu á Egilsstöðum.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.