Leiknir í erfiðri stöðu gegn Sindra
Möguleikar Leiknis á að komast upp í aðra deild karla í knattspyrnu virðast nánast úr sögunni eftir 5-1 tap fyrir Sindra í fyrri viðureign liðanna um helgina. Staða Fjarðabyggðar í fallbaráttu deildarinnar versnaði enn.
Atli Arnarson kom Sindramönnum yfir um miðjan fyrri hálfleik en Björgvin Stefán Pétursson jafnaði fyrir Leikni á lokamínútum síðari hálfleiks. Ógæfan dundi yfir Fáskrúðsfirðinga í seinni hálfleik í formi Fijad Mehanovic sem slapp tvisvar inn fyrir vörnina og skoraði. Sinisa Kekic og Ingvi Sigurðarson innsigluðu sigur Sindra.
Liðin mætast á Búðagruns kl. 17:15 á morgun. Leiknir þarf að vinna leikinn 4-0 til að komast beint upp í aðra deild. Frítt er á völlinn í boði Loðnuvinnslunnar.
Enn sígur á ógæfuhliðina hjá Fjarðabyggð í annarri deild en liðið tapaði um helgina 1-0 fyrir toppliði Völsungs á Húsavík með marki á 79. mínútu. Fjarðabyggðarliðið átti reyndar ágæt færi, meðal annars skalla í þverslá í uppbótartíma. Skömmu fyrir lok leiksins var Heimi Þorsteinssyni, þjálfara KFF, vikið af bekknum fyrir mótmæli.
Fjarðabyggð er í fallsæti, fimm stigum frá Gróttu sem er í öruggu sæti þegar tveir leikir og sex stig eru eftir.