Tveir mikilvægustu leikirnir í sögu Hattar framundan: Myndir úr tapinu gegn Tindastóli
Framtíð Hattar í fyrstu deild karla í knattspyrnu er enn í lausu lofti eftir 2-3 tap gegn Tindastóli á heimavelli í kvöld. Sauðkræklingar tryggðu áframhaldandi veru sína í deildinni en hjá Hetti taka við tveir úrslitaleikir.
Leikurinn var steingeldur fyrstu 45 mínútur leiksins. Boltinn gekk andstæðinga á milli, aðallega á miðjunni og gjarnan í loftinu. Athyglisverðasta atvikið var gult spjald á Davíð Einarsson, sóknarmann Hattar, fyrir að hindra markvörð gestanna í að taka útspark.
Í seinni hálfleik biðu fimm mörk. Davíð skoraði það fyrsta á 48. mínútu þegar hann náði boltanum eftir mislukkaðan skalla varnarmanns Tindastóls til baka, lék á markvörðinn og skoraði.
Tindastólsmenn jöfnuðu fjórum mínútum síðar. Reyndar jöfnuðu þeir tvisvar. Dómarinn, Halldór Breiðfjörð, flautaði brot utan teigs í þann mund sem boltinn barst á leikmann Tindastóls fyrir innan sem skoraði. Það skipti ekki máli. Aukaspyrnan var slök en frákastið féll fyrir Colin Helmrich í teignum sem sendi boltann í netið.
Tindastóll vildi meira
Tvö mörk úr langskotum á 73. og 78. mínútu gerðu út um leikinn. Atli Arnarson fékk svæði á miðjunni og hamraði boltann upp í vinkilinn. Síðan lék Benjamín Jóhannes Gunnlaugarson inn á vítateigsbogann frá vinstri og skoraði með góðu skoti niður í hornið.
Höttur sótti stíft síðustu mínúturnar en Stólarnir virtust hafa svör við öllum þeirra hugmyndum. Friðrik Ingi Þráinsson náði þó að minnka muninn á 93. mínútu þegar hann hirti frákastið eftir að markvörður Tindastóls varði skot Elvars Ægisson úr dauðafæri.
„Þetta var munurinn á liðunum í dag. Þeir eiga tvö skot fyrir utan sem fara inn. Mér fannst þeir heldur viljugri en við. Þetta var einn af þessum dögum þar sem við erum ekki alveg við sjálfir. Við létum allt flakka í lokin og náðum að minnka muninn en við þurfum að fara í smá naflaskoðun,“ sagði Eysteinn Hauksson, þjálfari Hattar, í samtali við Austurfrétt eftir leikinn.
Leiðinlegt að tapa en skemmtilegt og krefjandi verkefni eftir
Höttur er með fimm stiga forskot á Leikni Reykjavík og á eftir tvo leiki en Reykjavíkurliðið þrjá. Liðin mætast á Egilsstöðum eftir tíu daga í leik sem útlit er fyrir að verði hreinn úrslitaleikur um hvort liðið heldur sæti sínu í deildinni.
„Trúlega hafa ekki verið mikilvægari leikir í sögu Hattar en næstu tveir. Það er ljóst að þetta reynir gríðarlega á mannskapinn en ég hef rosalega trú á strákunum. Einbeitingin, spennustigið og allt annað verður að vera í lagi og við vinnum í að svo verði.
Strákarnir fá að hvíla sig aðeins en síðan förum við með full batterí að undirbúa okkur. Þótt leiðinlegt sé að taka þá er stórskemmtilegt og krefjandi verkefni framundan.“