Mögur helgi hjá austfirskum íþróttaliðum

Throtturnes stjarnan okt14 jgBlaklið Þróttar og körfuknattleikslið Hattar vilja eflaust gleyma nýliðinni helgi sem fyrst því liðin töpuðu öll sínum leikjum.

Lið Hattar í fyrstu deild karla í körfuknattleik tapaði á móti Val á föstudagskvöld en leikið var að Hlíðarenda. Hattarliðið var á eftir allt frá byrjun og tuttugu stigum undir á tímabili í seinni hálfleik en lokatölur voru 78-64.

Tobin Carberry var stigahæstur Hattarmanna með 27 stig og Hreinn Gunnar Birgisson skoraði ellefu.

Frí er í deildakeppninni um næstu helgi en úrvalsdeildarlið Snæfells kemur í heimsókn á laugardag í bikarkeppninni.

Í Neskaupstað spiluðu blakliðin fyrstu heimaleiki sína á tímabilinu. Miklar breytingar hafa orðið á kvennaliðinu í vetur og sem dæmi má nefna að átta stelpur spiluðu um helgina sinn fyrsta heimaleik fyrir félagið.

Mótherjar helgarinnar voru Stjörnustúlkur úr Garðabæ og unnu þær fyrri leikinn í þremur hrinum, 19-25, 14-25 og 18-25. María Karlsdóttir var stigahæst með níu stig og Lilja Einarsdóttir skoraði þrjú.

Garðabæjarliðið vann seinni leikinn á laugardag líka í þremur hrinum en þær voru jafnari, 21-25, 21-25 og 20-25. María Rún og Lilja voru aftur stigahæstar með 14 og 8 stig.

Karlalið Þróttar spilaði svo gegn HK og tapaði þeim leik í þremur hrinum, 17-25, 15-25 og 17-25. Valgeir Valgeirsson skoraði 8 stig fyrir Þrótt og Lárus Thorarensen sjö.

Liðin fara nú í fjögurra vikna frí fram að forkeppni bikarkeppni Blaksambandsins sem leikin verður í Neskaupstað.

Mynd: Jón Guðmundsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar