Úrvalsdeildarlið Snæfells kemur austur í bikarnum: Erum ekki að fara að keppa í skutlukasti
Höttur tekur á móti úrvalsdeildarliði Snæfells í 32ja liða úrslitum bikarkeppninnar í körfuknattleik á morgun. Þjálfari Hattar segir leikmenn Hattar ætla sér áfram í næstu umferð og vonast eftir góðum stuðningi áhorfenda til þess.„Þótt þeir séu sterkari á pappírunum þá erum við ekkert að fara að keppa í skutlukasti," segir Viðar Örn Hafsteinsson, sem þjálfar Hattarliðið.
Sem kunnugt er spilar Höttur í fyrstu deild en Viðar segist samt hvergi banginn fyrir slaginn við úrvalsdeildarliðið.
„Við ætlum okkur áfram í næstu umferð í þessu. Það er ekkert vera með hugsun hjá okkur. Þótt við séum með töluvert breytt lið frá í fyrra þá erum við í þessu til að vinna."
Í liði Snæfells er Austin Bracey sem síðustu tvo tímabil lék með Hetti. „Það verður bara gaman að fá Austin hérna aftur í heimsókn og berja svolítið á honum."
Fyrst og fremst vonast Viðar samt eftir að Austfirðingar fjölmenni á áhorfendapallana á morgun. „Ég vona það að fyrst við fengum úrvalsdeildar lið í 32 liða úrslitum þá fjölmenni fólk í íþróttahúsið og sjái óvænta hluti gerast.
Þetta er fyrsti heimaleikurinn okkar í vetur og það verður bara gaman að kveikja í vel í mannskapnum."
Leikurinn hefst klukkan 14:00 í íþróttahúsinu á Egilsstöðum.