Körfubolti: Snæfell númeri of stórt fyrir Hött - Myndir
Höttur tapaði í dag fyrir Snæfelli 80-101 í 32ja liða úrslitum bikarkeppni karla í körfuknattleik. Þjálfari Hattar kvaðst ánægður með frammistöðu liðsins á móti erfiðum andstæðing.Það var Hreinn Gunnar Birgisson sem byrjaði leikinn á þriggja stiga skoti og Hattarmenn voru yfir fyrstu þrjár mínúturnar, þar til Pálmi Freyr Sigurgeirsson setti niður þriggja stiga körfu og kom Snæfelli í 7-8.
Gestirnir létu forustuna aldrei af hendi eftir það og voru 18-23 yfir eftir fyrsta leikhluta. Áfram dró í sundur með liðunum í öðrum leikhluta en þar hittu Hattarmenn illa úr skotum sínum þrátt fyrir góðar sóknir. Í hálfleik var staðan 33-45.
Hattarmenn virtust ætla að byrja vel í þriðja leikhluta en Snæfellsmenn gáfu í og byggðu fljótt upp 20 stiga forskot sem hélst nokkurn vegin út fjórðunginn. Hattarmenn skoruðu síðustu körfu leikhlutans og minnkuð muninn í 52-69.
Höttur spilaði vel í síðasta leikhlutanum og eftir tvær þriggja stiga körfur í röð, fyrst frá Sigmari Hákonarsyni og svo Tobin Carberry, minnkuðu þeir muninn í átta stig, 70-78. Sóknarleikur Hattar byggðist upp á Carberry og var stillt upp fyrir hann í hverri sókninni á fætur annarri.
Þá beit úrvalsdeildarliðið frá sér aftur og skoraði fimmtán stig gegn fjórum á næstu þremur mínútum og þar með voru úrslitin ráðin.
Viðar Örn Hafsteinsson var þó sáttur við frammistöðu síns liðs í leikslok. „Við áttum mjög góða kafla í leiknum og baráttan var mjög góð. Skytturnar hjá þeim voru hins vegar í stuði og við réðum ekkert við þær."
Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, var ánægður með fyrstu deildar lið Hattar. „Þetta er ágætis lið og við vorum í miklum vandræðum með Kanann. Verkefnið í dag var að halda einbeitingu og bera virðingu fyrir sjálfum okkur og mótherjanum."
Hann viðurkenndi að liðið hefði verið þungt á sér eftir langt ferðalag í gær og erfiðan leik gegn Stjörnunni á fimmtudagskvöld.
Ingi Þór sagði menn hafa haldið ró sinni þótt Höttur minnkaði muninn í átta stig. „Við vorum ekki stressaðir en brugðumst bara rétt við. Hattarmenn eiga góða möguleika ef þeir sýna meira af þessari baráttu í fyrstu deildinni."
Tobin Carberry var stigahæstur Hattarmanna í dag með 36 en Hreinn Gunnar Birgisson skoraði 11. Í liði Snæfells var Austin Bracey, sem í fyrra spilaði með Hetti, stigahæstur með 27 stig.