Halli á heimsbikarmótið í bogfimi: Gamall draumur að rætast
Haraldur Gústafsson, eða Halli eins og allir kalla er á leiðinni erlendis að keppa í heimsbikarmóti í bogfimi. Keppnin fer fram í Marokkó áttunda og níunda nóvember næstkomandi.Halli er formaður bogfimideildar SKAUST og hefur hann þjálfað bogfimi og haldið námskeið í því félagi hér fyrir austan undanfarið ár.
„Það er Þrettán manna hópur að fara frá Íslandi, og ég hálfpartinn slysaðist með. Það var leitað eftir fólki úr öllum landshlutum til að fara til Marokkó að keppa í fyrsta legg heimsmeistaramótsins í bogfimi innanhús. En ég er ekki einn að fara, Jón Gunnarsson kemur líka. Við tveir keppum í sveigbogaflokki fyrir hönd Skotfélags Austurlands“ segir Halli í samtali við Austurfrétt.
Tilhlökkun
Hvernig leggst mótið í þig? „Ég er með hnút í maganum. Á mótinu verður er keppt á átján metrum sem er ólympískt „standard“ innanhús vegalengd og þarna á maður eftir að mæta nokkrum af bestu skyttum í heimi. Við félagarnir erum bara að leggja í hann suður á morgun. Það er bara komið að þessu. En auðvitað hlakka ég til, þetta er gamall draumur að rætast.“
Dýrt ferðalag
Í byrjun mánaðarins óskaði Halli eftir styrkjum til ferðarinnar á facebook síðunni Bogfimi á Austurlandi.
„Já, ég setti út þennan betlpóst á síðunna. Maður er náttúrulega öryrki og það rignir ekki yfirmann peningum og þetta er dýrt. Keppendur borga allt sjálfir, ferðakostnað, hótel, keppnisgjöld og uppihald. Ættingjar og vinir brugðust strax við, en af miklu þakklæti tek ég enn á móti öllum styrkjum til að auðvelda mér þennan draum,“ segir Halli.
Spáir góðu gengi
En vill Halli spá eitthvað um úrslit? „Það eru um nítíu manns að fara að keppa í mínum flokki og svona miðað við árangur fólks undanfarin tvö ár sem ég hef verið að skoða, þá ætti ég ef ekkert klikkar að ná þarna fyrir miðju eða aðeins betur. Það eitt og sér er ekki slæmur árangur sé litið til þess að ég er að fara að keppa á móti einstaklingum sem hafa æft bogfimi síðan þeir voru krakkar. Ég spái samt að Jón komist lengra en ég. Hann er mjög efnilegur. Annars er bara frábært að fá tækifæri til að vera með. Þetta eru líka spennandi tímar fyrir bogfimi íþróttina, á síðustu tveimur árum er skráður fjöldi þátttakenda búin að fara úr tíu upp í fimmhundruð landsvísu. Þessi íþrótt er bókstaflega að springa út,“ segir Haraldur að lokum.
Þeir sem vilja styrkja Harald geta lagt inn á eftir farandi reikning: 0372-13-112911 Kt:220370-4109