Lenti í 54. sæti á heimsbikarmótinu í bogfimi: Hefði alveg viljað komast hærra
Haraldur Gústafsson formaður bogfimideildar SKAUST er komin heim frá Marakkó. En þar fór fram heimsbikarmótið í bogfimi um síðustu helgi eins og Austurfrétt greindi frá fyrir skemmstu.Það var þrettán manna hópur sem fór frá Íslandi en Haraldur og Jón Gunnarsson eru þeir einu sem að fóru frá Austurlandi, en þeir kepptu í sveigbogaflokki.
„Þetta gekk rosalega vel og það var æðislega gaman að fá að taka þátt í þessu. Íslendingunum gekk vonum framar og voru slegin ófá Íslandsmet. Það var kona sem komst lengst af okkur, en Helga Kolbrún Magnúsdóttir frá Reykjavík lenti í fjórða sæti í sínum flokki, og ég mundi halda að hún væri fyrsti Íslendingurinn sem keppir um verðlaun á erlendri grundu í Bogfimi. Konur eru mikið að sækja í sig veðrið í þessari íþrótt. Þær standa sig frábærlega og eru rosalega góðar skyttur,“ segir Halli í samtali við Austurfrétt.
Halli lenti í 54. sæti og og Jón Gunnarsson í 40 sæti. „Þetta fór nákvæmlega eins og ég var búin að spá fyrir um. En ég er tiltölulega sáttur við útkomuna. Ég hefði alveg viljað komast hærra, en þetta voru erfiðir keppinautar.“
Halli óskaði eftir styrkjum til ferðarinnar. Hvernig gekk það? „Það tókst nokkuð vel. Ég náði vel upp í ferðina sjálfa með styrknum sem ég fékk og vil eindregið koma þakklæti til þeirra sem lögðu mér lið.“
Sjá fyrri frétt um Halla Hér.