Kiwanisfólk leikur lengstu golfholu landsins: Hugmyndin kom í draumi

isgolf_kiwanis.jpg

Kylfingar úr Kiwanis-hreyfingunni leika nú lengstu golfholu landsins sem liggur hringinn í kringum landið. Markmiðið er að vekja athygli á hreyfingunni og safna fé til styrktar góðum málefnum. Forsprakki hópsins segir hugmyndina hafa komið til sín í draumi.

 

„Ég hafði verið að hugsa um hvernig hægt væri að auglýsa Kiwanis og gera góða hluti í leiðinni og þá kom þessi hugmynd til mín eiginlega í draumi,“ segir Guðlaugur Kristjánsson.

„Ég vildi spila í gegnum bæjarfélögin og það var auðvelt í draumnum því við skutum bara á milli garða. Það má hins vegar ekki. Við mótuðum hugmyndina og fengum nauðsynleg leyfi.“

Austfjarðaþokan tafði

Ferðin hófst 18. júní og gert er ráð fyrir að hópurinn komi til Reykjavíkur á mánudag. Leikið var um Austfirði um helgina þar sem hópurinn hreppti bæði glampandi sól og hina frægu Austfjarðaþoku. „Við sáum stundum ekki á milli stikna á veginum og þurftum því að slá styttri högg.“

Að meðaltali eru slegnir um 150 metrar í hverju höggi og leiknir um 100 kílómetrar á dag. Litið er á hringveginn sem eina golfbraut með parinu 9999 höggum. Ferðin hefur samt gengið vel og vonast er til að hópurinn leiki undir pari.

Kylfingarnir eru 5-6 en 22 alls í hópnum. Þrír þáttagerðarmenn frá Skjágolfi eru með en stöðin sýnir tvo þætti um ferðina í haust. Aðrir sinna ýmsum hlutverkum en mikil áhersla er lögð á öryggismálin.

„Við erum með öryggisbíla á sitt hvorum enda, sérstaka fána sem við biðjum fólk um að virða og tvö hundruð metra aukasvæði þannig að engir bílar skemmist þótt kúlan fari á veginn.“

Nota tækifærið til að tína rusl

Þá leggur hópurinn áherslu á að bera virðingu fyrir náttúrunni. Skotið er af sérstökum mottum á viðkvæmum svæðum til að skaða þau ekki. Tækifærið hefur líka verið nýtt til að tína upp rusl í vegköntum.

„Ég hef veitt athygli miklu magni af haglaskotum. Við erum búin að taka upp yfir 70 skotum, í vegköntum þar sem virðist skotið úr bílum. Við týnum upp það rusl sem við sjáum, við notum tækifærið fyrst við erum hvort sem er úti í móa.“

Hinar ýmsu dýrategundir hafa einnig sýnt óvæntan golfáhuga. „Það er rétt við Höfn sem einn heyrir kurr, horfir í kringum sig og sér þá rjúpu í fetsfjarlægð. Hann þorði ekki að slá og þurfti að ýta henni frá. Á sama tíma kom önnur. Þær voru ekki hræddar, þær komu svo nálægt að hann hefði getað klappað þeim. Síðan höfum við fengið rollur upp á veginn sem neita að hreyfa sig og við þurft að bíða eftir þeim.“

Safnað er áheitum í ferðina. Helmingur ágóðans rennur til baráttunnar gegn stífkrampa í samstarfi við UNICEF, barnahjálp Sameinuðu þjóðanna. Hinn helmingurinn fer í að laga til á sambýlum landsins. Nánari upplýsingar um ferðina má finna á www.isgolf.is.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar