Bjartur 2012: Fyrsta sólarhringsrathlaupið á Íslandi

Sænautasel

Í fyrsta sinn á Íslandi verður haldið sólarhringsrathlaup á Jökuldalsheiði helgina 30. júní til 1. júlí. Rathlaupið reynir á ýmsa þætti, s.s. rötun, kortalestur, hreyfingu, úthald og samvinnu en keppt verður í liðaflokki. Styttri útgáfur af hlaupinu eru einnig í boði.

 

Sænautasel á Jökuldalsheiði verður miðpunktur rathlaupsins. Þaðan verða keppendur svo ræstir, fyrst í sólarhringshlaupið laugardaginn 30. júní klukkan 18:00. Þeir sem fara í tíu tíma rathlaup verða ræstir klukkan átta að morgni sunnudagsins 1. júlí og þátttakendur í fjölskyldurathlaupinu fara af stað á hádegi. Keppt verður í liðakeppni.

Klukkustund fyrir ræsingu fá liðin í hendur kort með ámerktum punktum. Hver punktur á kortinu stendur fyrir stað sem auðkenndur er með flaggi og þar er að finna gatara sem liðin nota til að gata þar til gert liðsblað og staðfesta komu sína á staðinn. Staðirnir gefa mis mörg stig eftir því hversu erfitt er að finna eða komast á viðkomandi stað, og sigrar það lið sem nær flestum stigum.

Það er Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands (UÍA), sveitarfélagið Fljótsdalshérað og ferðaþjónustufyrirtækið Austurför sem standa fyrir rathlaupinu. Nánari upplýhsingar um hlaupin má finna á www.uia.is eða Facebook-síðu rathlaupsins: https://www.facebook.com/Bjartur2012

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar