Eva Dögg glímukona ársins
Eva Dögg Jóhannsdóttir, glímukona frá Reyðarfirði, var um helgina útnefnd glímukona ársins 2014. Fyrsta umferð Íslandsmótsins fór fram fyrir skemmstu.Eva Dögg er 19 ára gömul og átti góðu gengi að fagna á glímuvellinum árið 2014. Hún tók þátt í öllum glímumótum á árinu 2014 og var ávallt í verðlaunasæti.
Eva keppti einnig á Evrópumeistaramótinu í keltneskum fangbrögðum þar sem hún hlaut ein silfurverðlaun og tvö bronsverðlaun í -63 kg flokki. Eva sigraði svo einnig nokkur alþjóðleg mót á árinu og varð meðal annars skoskur meistari í backhold.
Þá segir í greinargerð stjórnar Glímusambandsins að Eva sé fyrirmyndar íþróttakona jafnt innan vallar sem utan.
Hún varð í öðru sæti í +65 kg flokki og opnum flokki kvenna á fyrsta móti vetrarins en Eva Dögg keppir undir merkjum UÍA á landsvísu. Bylgja Rún Ólafsdóttir varð í þriðja sæti í báðum flokkum.
Ásmundur Hálfdán Ásmundsson bar sigur úr býtum í opnum flokki karla og +90 kg flokki. Hjörtur Elí Steindórsson varð í þriðja sæti og sigraði í -80 kg flokki.