Íþróttir helgarinnar: Þróttarliðin unnu síðustu leik sína fyrir jólafrí

blak throttur umfa 22042014 0198 webBlaklið Þróttar unnu síðustu leiki sína fyrir jólafrí en þau mættu KA á Akureyri um helgina. Körfuknattleikslið Hattar er í efsta sæti fyrstu deildar karla.

Karlalið Þróttar er í þriðja sæti eftir 1-3 sigur á KA á laugardag, 23-25, 20-25, 25-15, 23-25.

Kvennaliðið er líka á réttri leið, komið í fjórða sætið eftir að hafa unnið aðra helgina í röð. Liði vann báða leikina 0-3, á föstudag 11-25, 14-25 og 7-25 en 16-25, 16-25 og 13-25 á laugardag.

Bæði liðin eru komin í jólafrí og spila ekki aftur fyrr en um miðjan janúar.

Höttur sigraði Þór Akureyri í fyrstu deild karla í körfuknattleik á Egilsstöðum á föstudagskvöld 90-69. Þórsurum hefur gengið afleitlega og eru stigalausir eftir fyrstu níu umferðirnar en Höttur er efstur með 14 stig.

Akureyringarnir voru því engin fyrirstaða fyrir Hattarliðið. Eftir fyrsta leikhluta var staðan 32-17 og 54-43 í hálfleik. Hattarmenn héldu áfram og voru 71-54 eftir þriðja leikhluta og unnu sem fyrr segir 90-69.

Tobin Carberry var stigahæstur með 39 stig en Ásmundur Hrafn Magnússon og Viðar Örn Hafsteinsson skoruðu tólf hvor. Í liði gestanna var Frisco Sandidge, sem lék með Hetti í fyrrahaust, stigahæstur með 24 stig auk þess sem hann tók 21 frákast.

Höttur á eftir tvo heimaleiki til jóla, sinn hvorn föstudaginn, gegn KFÍ og Val.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar