Stefán Þór valinn íþróttamaður Þróttar
Knattspyrnumaðurinn Stefán Þór Eysteinsson hefur verið útnefndur íþróttamaður ársins hjá Þrótti í Neskaupstað. Fimm deildir félagsins tilnefndu sinn mann í kjörið.Stefán Þór var fyrirliði Fjarðabyggðar sem sigraði í 2. deild karla í sumar. Hann spilaði 23 af 25 leikjum liðsins og skoraði í þeim þrjú mörk.
Í rökstuðningi með tilnefningu hans segir að hann sé traustur leikmaður sem njóti virðingar innan vallar sem utan og sé ávallt tilbúinn að gefa af sér og leiðbeina öðrum leikmönnum.
„Hann er ábyrgur, samviskusamur, kurteis og heiðarlegur og frábær fyrirmynd alls íþróttafólks í Fjarðabyggð."
Auk Stefáns voru tilnefnd blakkonan Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir, sundkonan Ólafía Ósk Svanbergsdóttir, skíðamaðurinn Þorvaldur Marteinn Ólafsson og frjálsíþróttakonan Ester Jónsdóttir.