Eva Dögg Jóhannsdóttir er íþróttamaður Fjarðabyggðar 2014
Eva Dögg átti gríðarlega gott ár í glímunni, hún lenti í 1. sæti í flokki kvenna -65 kg og 2. sæti í opnum flokki í Landsflokkaglímu Íslands. Þá sigraði hún í backhold í opnum flokki kvenna á Hálandaleikunum í Skotlandi á árinu og gekk vel með glímulandsliðinu á öðrum mótum. Eva lenti í 2. sæti á Íslandsmótinu eftir harða baráttu um Freyjumenið.Eva Dögg var valin glímukona ársins 2014 hjá glímusambandinu auk þess sem hún var valin íþróttamaður ársins hjá UÍA.
Í umsögn frá ungmennafélaginu Val sem fylgdi tilnefningunni segir:
„Eva Dögg er metnaðarfull og viljasterk. Hún er fylgin sér og hefur mikið og gott keppnisskap. Hún er lipur og sterk og í stöðugri framför. Eva er óeigingjörn og ætíð tilbúin að hjálpa til við hvers kyns verkefni sem koma upp og varða glímuna og félagsstarf hjá Val. Eva Dögg var í ár kosin í stjórn Glímusambands Íslands. Hún er góð í að segja til og góður félagi. Hún er búin að ná sér í dómararéttindi í glímu og dæmir hjá yngri keppendum.“
Aðrir sem tilnefndir voru til íþróttamanns Fjarðabyggðar 2014
Ásbjörn Eðvaldsson – skíðamaður, Austra Eskifirði
Björgvin Stefán Pétursson – knattspyrnumaður, Leikni Fáskrúðsfirði
Guðbjartur Hjálmarsson – hestamaður, Blæ
Stefán Þór Eysteinsson – knattspyrnumaður, Þrótti Neskaupstað
Þorvaldur Marteinn Jónsson – skíðamaður, Skíðafélagi Fjarðabyggðar.
Auk þess að heiðra ofantalda voru veittar viðurkenningar til þeirra einstaklinga sem hafa tekið þátt í landsliðsverkefnum á árinu.
Mynd: Frá vinstri Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri, Eva Dögg Jóhannsdóttir íþróttamaður Fjarðabyggðar 2014, Kristín Gestsdóttir formaður íþrótta- og tómstundanefndar og Guðmundur Halldórsson íþrótta- og tómstundafulltrúi.