Ívar Ingimars: Ekkert skemmtilegra en að reka spárnar ofan í sérfræðingana
Miklu máli skiptir fyrir knattspyrnulið að finna fyrir jákvæðum stuðningi fjölmargra stuðningsmanna á heimavelli. Neikvæðni fælir áhorfendur frá og að skammast út í dómarann hefur þveröfug áhrif.
„Þegar maður er að spila inná vellinum og finnur að það er stuðningur þá er það hrikalega gaman,“ sagði Ívar, sem um árabil var atvinnumaður í knattspyrnu í Englandi á fjölmennu stuðningsmannakvöldi Hattar í vikunni.
Ívar ræddi um stuðningsmannamenningu og hvatti menn til að styðja liðið á „jákvæðan og uppbyggjandi hátt.“ Blótsyrði og neikvæðni fæla sérstaklega fjölskyldufólk frá vellinu.
„Lið eins og Höttur stóla uppá það að krakkar vilji fara á leiki og suði í mömmu og pabba að koma með sér þannig að hvatning á jákvæðum nótum skiptir máli. Ef að menn setja sér það markmið núna að vera bara jákvæðir og það spyrst út þá er líklegra að fleiri mæti á völlinn.“
Skemmir að skamma dómarana
Ívar sagði að í Englandi hafi verið lagt að leikmönnum að tuða ekki í dómurum. Líklegra sé að það skemmi fyrir liðinu frekar en hjálpi. Þetta á jafnt við um viðmót leikmanna, þjálfara og áhorfenda gagnvart dómurunum,“ sagði Ívar og lagði áherslu á að sýna dómurum jákvætt viðhorf.
Ívar hvatti stuðningsmennina til að mæta snemma á völlinn og taka á móti liðinu þegar flautað er til leiks. „Það er hrikalega mikilvægt fyrir liðið þegar það er labbað út að það sé tekið á móti liðinu.“
Ekkert skemmtilegra en að reka spárnar ofan í sérfræðingana
Liðið leikur sinn fyrsta heimaleik í fyrstu deild gegn Haukum á morgun en liðið vann Þrótt í Reykjavík 1-3 um síðustu helgi. Sigurinn kom nokkuð á óvart þar sem Hetti var almennt spáð falli fyrir mót.
„Það er ekkert skemmtilegra en að reka það í andlitið á svokölluðum sérfræðingum, sem spá mönnum að þeir fari niður, að sýna þeim hvað menn virkilega geta. Þeir segja að menn geti ekki neitt og fari niður og það er kannski vegna þess að þeir vita ekki hvað menn heita. Það hefur ekkert með það að gera hvað menn heita hvað þeir geta í fótbolta.“
Góð byrjun skiptir máli
Ívar segir samstöðuna skipta miklu mái fyrir árangur liðsins. Góð byrjun efli sjálfstraustið fyrir komandi leik. „Ef lið standa ekki saman og líta ekki eftir hvor öðrum ná þeir yfirleitt ekki árangri sama hvað þeir heita. Það skiptir gríðarlega miklu máli að þeir séu komnir með 3 stig núna, það skiptir miklu máli að fylgja því eftir.“
Ívar segir að íþróttafélagið mætti vera sýnilegra á Egilsstöðum. Slíkt skjóti gestaliðum skelk í bringu þegar þau mæti til leiks.
„Það vantar pínulítið að þegar maður kemur inní fyrirtæki eða sér bíl keyra framhjá sér sjái maður: „Ég styð Hött“ eða „Þetta er heimabær Hattar“ þannig að þegar liðin koma hingað að þá sjá þau að þau eru kominn á stað þar sem Höttur ræður ríkjum.“