Heiðdís valin íþróttamaður Hattar
Knattspyrnukonan Heiðdís Sigurjónsdóttir var útnefnd íþróttamaður Hattar á Egilsstöðum á þrettándagleði félagsins í gær. Hafsteinn Jónasson og Elín Sigríður Einarsdóttir fengu starfsmerki fyrir áralangt starf fyrir félagið.Heiðdís, sem nýverið skipti yfir í úrvalsdeildarlið Selfoss, var fyrirliði meistaraflokks Hattar í sumar. Hún lék að auki fimm leiki með U-19 ára landsliði Íslands sem tryggði sér þátttökurétt í milliriðli fyrir úrslitakeppni Evrópumótsins sem verður í Ísrael.
Deildir Hattar útnefna hvern sinn íþróttamanninn en auk Heiðdísar voru tilnefnir: Guðjón Hilmarsson, blak, Kristinn Már Hjaltason, fimleikar, Atli Pálmar Snorrason, frjálsíþróttir og Hreinn Gunnar Birgisson, körfuknattleik.
Þá voru veitt starfsmerki Hattar í þriðja sinn en þau hljóta einstaklingar sem unnið hafa óeigingjarnt starf í þágu félagsins til lengri tíma.
Hafsteinn Jónasson hefur verið formaður aðalstjórnar, setið í stjórn körfuboltadeildar í rúmlega 10 ár og gegnt ýmsum öðrum trúnaðarstörfum og hlaut starfsmerki UÍA 2012.
Elín Sigríður hefur meðal annars gegnt formannstöðu hjá fimleikadeild og skíðadeild. Einnig hefur hún setið í stjórn frjálsíþróttadeildar og verið virkur þátttakandi í foreldrastarfi ýmissa deilda. Þá hefur hún verið skoðunarmaður reikninga ýmissa deilda.
Myndir: Jón Tryggvason