Öldungamót í blaki: Vonum að það verði einhver eftir í bænum til að halda mótið
Búið er að festa kaup á þremur uppblásnum tjöldum sem alls rúma sjö blakvelli fyrir Öldungamótið í blaki sem haldið verður í Neskaupstað í byrjun maí. Öldungurinn segir bæjarbúa hjálpast að við undirbúning mótsins.„Það eru allar undirbúningsnefndir komnar á fullt. Það þarf að koma 1500 manns fyrir í Neskaupstað án þess að gist verði í tjöldum eins og á Eistnaflugi.
Öll gisting er löngu uppbókuð og fólk er að leigja út húsin sín. Við vonum að það verði einhver eftir í bænum til að vinna við mótið og þjónusta keppendur," segir Stefán Jóhann Jóhannsson, öldungur mótsins.
Hann gerir ráð fyrir að 120-180 sjálfboðaliða þurfi til að vinna við mótið. „Það gengur ágætlega að fá fólk til starfa. Bæjarbúar eru ánægðir með að fá mótið og viðbrögðin í samfélaginu hafa verið jákvæð."
Meðal þess sem gera þarf er að setja upp þrjú uppblásin tjöld á gervigrasvellinum sem leikið verður í. Búið er að kaupa tjöldin en þau eru framleidd í Kína. Von er á að þau komi til Norðfjarðar í byrjun apríl.
„Þau eru 10 milljón króna verkefni og það er blakdeildin sem kaupir þau. Þetta snýst um að sanna að hægt sé að halda mótið annars staðar en í Reykjavík eða Akureyri."
Tjöldin eru þrjú, öll eru 25 metra breið en tvö þeirra eru 28 metra löng og rúma tvo velli en það stærsta er 40 metra langt og rúmar þriðja völlinn. Tjöldin eru færanleg og hægt er að nýta þau í fleiri viðburði en ekki hefur verið ákveðið hvað um þau verður eftir mótið.
Inn í tjöldin þarf að koma fyrir þriggja laga gólf. Neðst verður smellugólf, ofan á það kemur krossviður og efst verður íþróttadúkur.
Stefán Jóhann segir að góð einangrun sé í húsunum því útveggirnir séu tveggja laga og lofti á milli þeirra auk þess sem auðvelt sé að hita þau upp.
Þá er unnið að samningum við styrktaraðila en Stefán segir stefnt að því að selja mótið í heild sinni til eins stórs aðila. Þeim samningum sé verið að loka.
Til viðbótar við uppblásnu húsin verða þrír vellir í íþróttahúsinu í Neskaupstað.
Sjálfur flutti Stefán Jóhann til Svíþjóðar í haust og vinnur að mótinu þaðan. „Það er ekkert mál með gott fólk með sér. Það er góður kjarni á Norðfirði sem kemur að mótinu og þetta er ekki hægt öðruvísi en að hafa gott fólk í kringum sig."