Fóru í landsliðsferð á nýársmorgun: Markmiðið að komast á Smáþjóðaleikana
Tveir austfirskir blakmenn voru í A-landsliðum Íslands sem flugu til Lúxemborgar um það leiti sem aðrir landsmenn hættu að fagna ári að morgni nýársdags. Ferðin var liður í undirbúningi fyrir Smáþjóðaleikanna sem verða hérlendis í júní.„Smáþjóðaleikarnir eru stærsta verkefni blaklandsliðsins og það er markmiðið að vera í liðinu á leikunum," segir Matthías Haraldsson.
Hann og Valgeir Valgeirsson voru í karlalandsliðinu sem kvaddi Ísland klukkan fjögur á nýársdagsmorgun til að taka þátt í Novotel-bikarnum í Lúxemborg. Þeir komu heim í byrjun vikunnar.
Á mótinu var spilað við Dani, Norðmenn, Svisslendinga og heimamenn. Liðið tapaði öllum sínum leikjum 0-3 en Matthías segir samt að liðið hafi fengið góða reynslu út úr leikjunum.
Kvennalandsliðið spilaði einnig á mótinu. Enginn núverandi leikmaður Þróttar var í liðinu en nokkrir fyrrverandi, þeirra á meðal Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir sem spilaði sinn fimmtugasa landsleik.
Smáþjóðaleikarnir eru haldnir á tveggja ára fresti og verða í ár í Reykjavík 1. – 6. júní. Þeir voru síðast í Lúxemborg þar sem Matthías var þjálfari kvennaliðsins og hann spilaði árið 2003 þegar leikarnir voru haldnir á Möltu.
„Nú þarf maður að halda sér heilum og æfa vel til að komast í liðið. Ég get ímyndað mér að það verði geggjað að spila fyrir fullri frjálsíþróttahöll í Laugadalnum með körfuboltalandsliðið í næsta sal."