Íþróttir helgarinnar: Mikilvægur sigur Hattar á Hamri
Höttur heldur efsta sætinu í fyrstu deild karla í körfuknattleik eftir mikilvægan útisigur á Hamri. Þróttur komst í þriðja sætið í Mizuno-deild karla í blaki með góðum heimasigri á Aftureldingu um helgina.Höttur og Hamar mættust í hörkuleik í Hveragerði á föstudagskvöld. Heimamenn höfðu undirtökin framan af en Hattarmenn voru aðeins einu stigi undir eftir fyrsta leikhluta, 30-29.
Það var síðan um miðjan annan leikhluta sem Höttur náði undirtökunum og komst yfir 43-45 eftir að jafnt hafði verið 41-41 og 43-43. Egilsstaðaliðið lauk leikhlutanum vel og var 47-54 yfir í hálfleik.
Munurinn varð aldrei mikill en forskotið létu Hattarmenn aldrei af hendi, voru 74-80 yfir eftir þriðja leikhluta og innsigluðu 95-102 sigur.
Tobin Carberry var stigahæstur Hattarmanna með 35 stig en Ragnar Gerald Albertsson skoraði 26 og Nökkvi Jarl Óskarsson 20.
Á laugardag tók blaklið Þróttar á móti Afturelding og vann 3-0 eða í hrinum 25-14, 25-19 og 25-9.
Þróttarar höfðu talsverða yfirburði í leiknum en gestirnir gerðu mörg mistök og gekk illa að sækja stig.
Leikurinn átti að fara fram í desember en var þá frestað vegna veðurs.
Landsliðsmennirnir Valgeir Valgeirsson og Matthías Haraldsson voru stigahæstir hjá Þrótti með 20 og 11 stig.