Blak: Fyrsti úrslitaleikurinn í kvöld
Þróttur heimsækir Aftureldingu í Mosfellsbæ í kvöld í fyrstu viðureign liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í blaki kvenna. Þróttur hefur þar titil að verja.
Leikurinn í kvöld hefst klukkan 19:00 í íþróttahúsinu að Varmá. Það lið sem fyrr vinnur tvo leiki hampar Íslandsmeistaratitlinum. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Sporttv.is.
Liðin mættust í úrslitaleik bikarkeppninnar þar sem Afturelding vann öruggan sigur. Síðan hefur Þróttur styrkt sig sem sýndi sig þegar liðið sló deildarmeistara HK úr leik í undanúrslitum í tveimur leikjum.
Í liði Aftureldingar eru einir fjórir fyrrverandi leikmenn Þróttar auk þjálfarans. Flest þessara vistarskipti urðu síðasta sumar. Mikið breytt Þróttarlið hefur verið á uppleið allt þetta keppnistímabil. Liðið er núverandi Íslandsmeistari en það vann þrefalt á síðustu leiktíð.