Eggert Gunnþór öflugur í fyrsta leik með nýju félagi: Hann hræðist ekki tæklingarnar

eggert gunnthor vestsjaellandEskfirðingurinn Eggert Gunnþór Jónsson spilaði í gærkvöldi sinn fyrsta leik með danska úrvalsdeildarliðinu FC Vestsjælland. Forstöðumaður segir að Eggert mun tvímælalaust styrkja leikmannahópinn.

„Eggert Gunnþór er viljasterkur fagmaður og það kunnum við vel að meta hér hjá FCV," segir forstöðumaður íþróttasviðs félagsins, Jacob „Gaxe" Gregersen.

Eggert, sem er 26 ára gamall, spilaði síðast með Belenenses í Portúgal en hefur verið á Íslandi síðan í sumar við æfingar til að ná sér af þrálátum meiðslum.

„Hann vantar leikæfingu en það er eðlilegt því hann hefur verið lengi meiddur. Við höfum aldrei efast um getu hans, við eigum bara eftir að sjá hvernig hann kemur út eftir meiðslin. Ég hef fylgst með honum í nokkur ár og þekki styrkleika hans vel."

Eggert Gunnþór er uppalinn hjá Austra og steig sín fyrstu skref með Fjarðabyggð áður en hann hélt til til Hearts í Skotlandi þar sem hann spilaði 153 leiki og skoraði átta mörk en spilaði svo ekki nema níu leiki á tíma sínum hjá Wolves og Charlton í Englandi.

Hann spilaði sinn fyrsta leik með Vestsjælland í 3-0 sigri á Brönshöj í æfingaleik í gærkvöldi. Á vef danska félagsins segir að Eggert hafi spilað virkilega vel á miðjunni.

Hann á að baki yfir 30 unglingalandsliðsleiki og 21 A-landsleik. Samningur hans við danska félagið er til hálfs árs.

„Hann er Íslendingur og það finnst mér góðs viti. Ég er mjög ánægður með hugarfar íslenskra leikmanna. Þeir eru ákveðnir en auðmjúkir. Og hann hræðist ekki tæklingarnar," segir Gaxe.

„En hann er líka virkilega góður knattspyrnumaður, því mega menn ekki gleyma. Hann er líkamlega sterkur og slíkan styrk höfum við þörf fyrir en við höfum líka þörf fyrir snilli hans með boltann."

FCV er í næst neðsta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar. Keppni hefst í henni á ný eftir vetrarfrí þann 22. febrúar.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.