Karfa: Þetta lítur ansi vel út ef við klárum okkar leiki – Myndir
Höttur hefur um stund átta stiga forskot á toppi fyrstu deildar karla í körfuknattleik eftir tvo sigra á Breiðabliki um helgina. Þjálfarinn segir liðið þurfa sýna andlegan styrk til halda áfram í átt að sæti í úrvalsdeild á næsta tímabili.Hattarmenn voru undir í fyrri leiknum þar til í miðjum þriðja leikhluta að þeir komust loks yfir. Staðan fór þá úr að vera 47-47 í 58-48 og síðan 65-55 fyrir lok fjórðungsins. Eftir það kláruðu Hattarmenn leikinn örugglega, 88-72.
Í seinni leiknum á sunnudag voru Hattarmenn mest allan tímann með undirtökin nema á stuttum kafla í þriðja leikhluta.
Vendipunktur leiksins var þegar Tobin Carberry stal boltanum, komst í hraðaupphlaup og tróð til að minnka muninn í 56-57. Við það kviknaði í Hattarmönnum og þeir skoruðu fimm stig í röð.
Á sama tíma misstu Blikar hausinn en Brynjar Karl Ævarsson þurfti að yfirgefa völlinn eftir að hafa fengið sína aðra óíþróttamannslegu villu. Fleiri leikmenn Breiðabliks voru í vandræðum en Egill Vignisson fékk sína fimmtu villu. Breki Gylfason fékk loks brottvísun fyrir að slá Ragnar Gerald Albertsson í andlitið þegar sá síðarnefndi stökk upp í síðasta skot leiksins.
Hattarmenn sýndu hins vegar öryggi og unnu 86-72. Tobin var stigahæstur í báðum leikjum, skoraði 36 stig í fyrri leiknum og 40 í þeim seinni.
„Hann kveikti í okkur þegar hann stal boltanum og tróð. Við það kemur stemmingin okkar megin," sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, um vendipunkt leiksins í samtali við Austurfrétt.
Hann hrósaði gestunum í Breiðabliki. „Þetta er betra lið en við mættum í haust. Þeir eru ekki með Kana en hafa unga stráka sem eru tilbúnir að berjast fyrir málstaðinn. Þeir börðust vel gegn okkur og náðu aðeins að hleypa upp leiknum."
Gróf brot gestanna í lok beggja leikjanna sátu lítið í Viðari. „Menn eru ekkert sáttir við að tapa. Ég er ánægður með mína stráka sem héldu haus og kláruðu leikina. Það vantar bara að við spilum 40 góðar mínútur."
Eftir leikinn hefur Höttur 8 stiga forskot á FSu sem á tvo leiki til góða. Efsta lið deildarinnar fer beint upp í úrvalsdeild en næstu fjögur komast í úrslitakeppni um annað laust sæti í efstu deild.
„Við erum í góðum málum en þurfum að sýna andlegan styrk og klára dæmið. Þetta er í okkar höndum en hver og einn sigur er gríðarlega mikilvægur. Þetta lítur ansi vel út ef við klárum okkar leiki."