Austfirðingar halda úti NFL vef: Erum sjúklega peppaðir fyrir Super Bowl
Þrír Austfirðingar eru meðal þeirra sem halda úti íslenskum vef þar sem nálgast má allt það helsta um ameríska fótboltann. Hápunktur tímabilsins eru framundan því úrslitaleikurinn verður annað kvöld.„Ég er sjúklega peppaður fyrir leiknum," segir Matthías Tim Rühl Sigurðsson einn þremenninganna.
Félagi hans Sigurður Björn Teitsson er hins vegar enn í áfalli eftir að hafa horft á sína menn í Green Bay Packers henda frá sér unnum leik í undanúrslitum gegn ríkjandi meisturum í Seatte Seahawks.
„Ég er enn að jafna mig eftir tapið en hef reynt að peppa mig upp fyrir leikinn með að skrifa um hann. Þetta er allt að koma – ég verð orðinn góður á morgun," segir hann.
Áhugi þeirra er sprottinn af misjöfnum rótum. Matthías segist hafa fengið leið á fótbolta en Sigurður Björn var að leita sér að íþrótt til að fylgjast með.
„Við reyndum að horfa á einn hafnaboltaleik en hann var drep. Ef fólk talar um að ameríski fótboltinn gangi hægt þá ætti það að kíkja á hafnaboltann."
Draumadeild kveikti áhugann
Það var svokölluð „fantasy" deild sem kveikti áhugann af alvöru. Þar setja menn sig í spor þjálfara, kaupa menn til sín leikmenn úr leiknum og spila hver á móti öðrum í misopnum hópum en slíkt hefur verið afar vinsælt í enska boltanum.
„Í enska boltanum hafa menn ákveðinn fjárhagsramma og kaupa leikmenn út frá honum. Þar geta margir keypt sömu leikmennina og leikurinn snýst því fyrst og fremst um að veðja á réttan fyrirliða.
Það geta engir tveir verið með sama manninn í NFL-deildunum. Þú þarft velja leikmenn sem eru með lausa samninga (drafta), vera framarlega í röðinni þegar kemur að velréttinum og vera vakandi þegar góðir leikmenn sem enginn er með springa út.
Þetta er því miklu meiri hugsun og meiri tími sem fer í þennan leik en um leið er hann frábær leið til að kynnast NFL," útskýrir Matthías.
Vaxandi áhugi á NFL á Íslandi
Þriðji Austfirðingurinn er Kjartan Ágúst Jónasson en auk þeirra eru þrír aðrir sem standa að vefnum nflsport.is. Þar má nálgast fréttir um NFL deildina, fréttaskýringar, útskýringar á íþróttinni og viðtöl við áhugamenn.
Meðal þeirra sem teknir hafa verið tali að undanförnu eru Arnór Atlason og Ásgeir Örn Hallgrímsson, landsliðsmenn í handknattleik.
„Við vissum af áhuga þeirra á NFL og höfðum samband við þá. Þeir voru allir af vilja gerðir," segir Matthías.
Ameríski fótboltinn getur reynst flókin íþrótt fyrir byrjendur. Skipt er um lið milli varnar og sóknar og þjálfarateymin eru sífellt að stilla upp leikkerfum til að reyna að opna eða stöðva mótherjana. Bæklingur sem útskýrir íþróttina er einmitt væntanlegur inn á vefinn í dag.
Áhugi Íslendinga á íþróttinni er nýtilkominn en hefur vaxið jafnt og þétt. Þessu til stuðnings benda félagarnir á að fylgjendum þeirra á Facebook hafi fjölgað um 200% á stuttum tíma.
Þetta þýðir einnig að mörg hugtök sem tengjast íþróttinni eru flest á ensku. Á vefnum leggja þeir áherslu á að íslenska þau.
„Viðbrögðin eru blendin en fólk er almennt jákvætt fyrir tilraunum okkar. Það hjálpar til og bendir okkur á betri orð," segir Sigurður.
Þá er einnig sagt frá Íslendingum sem spila amerískan fótbolta en eitt lið, Einherjar, er til staðar. Það er staðsett í Reykjavík og skipta leikmenn sér í tvö lið og spila þannig til Íslandsmeistaratitils.
Gáfaðasti maðurinn í NFL
Og framundan er hápunktur tímabilsins því úrslitaleikur deildarinnar sem kenndur er við Ofurskálina (Super Bowl) verður á morgun. Viðburðurinn er sá vinsælasti í bandarísku sjónvarpi með yfir 110 milljónir áhorfenda og auglýsingaplássin í leikhléum kosta eftir því.
Annað kvöld verða það New England Patriots og Seattle Seahawks sem leiða saman hesta sína. Augu flestra beinast að Tom Brady, leikstjórnanda Patriots, sem er þekktasti NFL-leikmaðurinn á heimsvísu í dag.
Hann spilar í sjötta sinn um Ofurskálina og hefur þrisvar unnið hana en meira en tíu ár er síðan það gerðist síðast.
Matthías, sem styður San Francisco 49ers, segir liðin hafa svipaða styrkleika. Þau séu með frábæra leikstjórnendur, veika útherja og sterk í seinni varnarlínu. Því geti yfirþjálfararnir skipt sköpum í jöfnum leik og þar er Matthías spenntari fyrir þjálfara Patriots, Bill Belichick.
„Hann er talinn einn gáfaðasti maðurinn í NFL-heiminum. Hann á 850 bóka safn um NFL, ég held að hann hljóti að skrifa margar þeirra sjálfur því mér hefur ekki tekist að finna svo margar sjálfur.
Í NFL er víða þekkt hvernig liðin spila, hvar þeirra styrkleikar og veikleikar liggja en hann nær oft að stöðva hin liðin á meðan hans lið spilar aldrei eins. Þótt liðin séu lík þá er ég spenntastur fyrir að sjá hvaða ás hann á uppi í erminni."