Þróttur í úrslitakeppnina í blaki
Þróttur Neskaupstað tryggði sér um síðustu helgi sæti í úrslitakeppni 1. deildar kvenna í blaki með mögnuðum sigri á deildarmeisturum HK í Kópavogi. Þróttarfólk var einnig sigursælt á uppskeruhátíð Blaksambandsins um helgina.
Þróttur vann HK 2-3 í Fagralundi á föstudagskvöld. Þrátt fyrir sigur Þróttar tryggði HK sér deildarmeistaratitilinn þetta kvöld. Hvort lið þurfti að vinna tvær hrinur í leiknum til að ná settu markmiði.
Þróttur vann fyrstu hrinuna 24-26 en HK næstu tvær 25-13 og 25-13. Þróttur svaraði aftur fyrir sig með að vinna síðustu tvær hrinurnar, 22-25 og 10-15 í oddahrinu. Helena Kristín Gunnarsdóttir var stigahæst í liði Þróttar með 22 stig en Hulda Elma Eysteinsdóttir gerði 13.
Þrótti mistókst hins vegar að stela þriðja sætinu af nafna sínum úr Reykjavík en Reykjavíkurliðið vann æsilega viðureign liðanna á laugardag 3-2.
Norðfjarðarliðið vann fyrstu hrinuna en 12-25 en næstu tvær voru æsispennandi eins og tölurnar bera með sér, Þróttur Reykjavík vann þær báðar 27-25. Norðfjarðarliðið svaraði aftur fyrir sig 17-25 í fjórðu hrinu en tapaði oddahrinunni 15-12. Helena Kristín var aftur stigahæst með 24 stig en Hulda Elma skoraði 14.
Þrenn verðlaun féllu Þróttarstúlkum í skaut á uppskeruhátíð Blaksambandsins um helgina. Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir var valinn besti frelsinginn, Lilja Einarsdóttir efnilegasti leikmaðurinn og Matthías Haraldsson besti þjálfarinn.
Úrslitakeppnin hefst strax eftir páska. Þróttur tekur á móti HK í fyrsta leik í Neskaupstað að kvöldi miðvikudagsins 11. apríl. HK á heimaleikjaréttinn en ekki er hægt að leika í Fagralundi þá vegna annarra viðburða. Annar leikurinn verður föstudagskvöldið 13. apríl í Kópavogi og oddaleikurinn verður þar líka 17. apríl ef þarf. Liðin háðu æsilega baráttu um Íslandsmeistaratitilinn í fyrra sem réðist í oddaleik í Neskaupstað.