Körfubolti: Höttur einum sigri frá úrvalsdeildarsæti

karfa hottur breidablik jan15 0010 webKarlalið Hattar í körfuknattleik þarf að vinna einn leik í viðbót til að tryggja sér sæti í úrvaldsdeild á næstu leiktíð. Þjálfarinn segir að liðið verði að halda einbeitingu til að ljúka leikjunum þremur sem eftir eru.

Liði FSu, sem helst hefur haldið í við Hött, fataðist í gærkvöldi flugið þegar það tapaði 79-98 fyrir Hamri. Helgin var reyndar sérstaklega slæm fyrir FSu sem einnig tapaði fyrir Val á föstudagskvöld.

Með sigrinum jafnaði Hamar FSu að stigum en liðin eru með 22 stig eftir 17 leiki. Höttur hefur hins vegar 30 stig en hefur leikið 18 leiki.

Í deildinni í vetur er leikin þreföld umferð, eða 21 leikur á lið. Efsta liðið fer beint upp í úrvalsdeild og staðan er sú að Hetti dugir einn sigur í viðbót, gegn því að liðin tvö af Suðurlandinu vinni alla sína fjóra.

„Ég met stöðuna þannig að hún er vænleg en við verðum að halda fókus og klára dæmið. Við ætlum ekki bara að vinna einn leik heldur að klára alla og mótið af miklum krafti," sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar í samtali við Austurfrétt í morgun.

Leikirnir þrír skiptast upp í útileik gegn Hamri á föstudag, heimaleik gegn FSu 6. mars og ÍA verður heimsótt í lokaumferðinni tveimur vikum síðar. „Við eigum þrjá hörku leiki eftir og við þurfum að spila vel til þess að ná að klára þetta," segir Viðar.

Liðinu fataðist lítillega flugið um helgina þegar það tapaði fyrir Val eftir ellefu sigurleiki í röð. „Við gerðum ekki nógu vel gegn Val og erum staðráðnir í að snúa því við strax."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar