Þróttur í úrslit bikarsins eftir sigur á Eik: Myndir

throttur_eik_blak_bikar_17032012_0048_web.jpg

Þróttur Neskaupstað mætir Aftureldingu, í úrslitum bikarkeppni kvenna í blaki á morgun. Þróttur var með örugg tök á leik sínum gegn Eik í undanúrslitum í dag og vann 3-0.

Þróttur var sterkara liðið á pappírunum fyrirfram. Lið Eikar er frá Akureyri og er skipað leikmönnum sem fyrst og fremst hafa látið til sín taka í öldungablaki. Liðið komst óvænt í undanúrslit bikarkeppninnar en það tekur ekki þátt í deildakeppni. Þróttarliðið er á móti ríkjandi bikarmeistari og berst um sæti í úrslitakeppni 1. deildar kvenna.

 

Sigur Þróttar var öruggur þótt Eik væri aldrei langt undan. Eftir að staðan var 8-8 í fyrstu hrinu gaf Þróttur í og komst í 17-9. Eyjafjarðarliðið minnkaði muninn aftur í 18-14 en þá tóku Þróttarstelpur aðra rispu og komust í 24-15. 

 

Það veittist þeim þó erfitt að klára hrinuna. Anna María í lið Eikar tók við að berja fastar uppgjafir rétt yfir netið sem ollu Þróttarliðinu miklum vandræðum. Síðasta stigið kom fyrir rest og hrinan vannst, 25-21.

 

Neglur Helenu 

 

Eik byrjaði betur í annarri hrinu, var yfir 4-8 og hélst sá munur framan af. Jafnt og þétt vann Þróttur á, minnkaði muninn í 12-14 og komst yfir með að skora fjögur stig í röð, 16-14. Eik minnkaði muninn í 17-16 en þá skoraði Þróttur sjö stig í röð og vann loks hrinuna 25-18.

 

Framlag Helenar Kristínar Gunnarsdóttur í hrinunni skipti miklu máli. Um það leyti sem þær voru að snúa henni sér í hag skoraði hún 3-4 stig með smössum úr aftari línu. Þegar Þróttarliðið náði að spila boltanum upp þannig Helena gæti komið á ferðinni og smassað var í raun ekki að sökum að spyrja, boltinn skall í gólfinu hinum megin með látum.

 

Klárað í þremur hrinum 

 

Eik byrjaði aftur betur í þriðju hrinu, komst í 6-9 en Þróttur jafnaði í 10-10. Norðfjarðarstúlkur náðu síðan fimm stiga forskoti, 18-13 en það tókst Akureyringum að vinna upp með seiglunni og jafna í 18-18. Þróttur náði undirtökunum á ný, 21-19 og 23-20. 25-22 sigurinn var tryggður þegar dæmt var net á Eikarliðið.

 

Leikurinn í dag var aldrei sérstaklega hraður. Þróttur er með mjög ungt lið en Eikarliðið er töluvert eldra. Góður varnarleikur, sérstaklega í hávörn, lagði grunninn að sigri Þróttar. 

 

Afturelding andstæðingarnir 

 

Afturelding vann HK í hinum undanúrslitlaleiknum 3-0 og mætir því Þrótti í úrslitaleiknum klukkan 13:30 í Laugardalshöll á morgun. Sýnt verður beint frá leiknum á RÚV. Búast má við að brattann verði að sækja fyrir Þrótt enda hafa Afturelding og HK borið höfuð og herðar yfir önnur lið á Íslandsmeistaramótinu í vetur. Í liði Aftureldingar eru þrír leikmenn úr bikarmeistaraliði Þróttar í fyrra auk þjálfarans.

 

throttur_eik_blak_bikar_17032012_0002_web.jpgthrottur_eik_blak_bikar_17032012_0005_web.jpgthrottur_eik_blak_bikar_17032012_0011_web.jpgthrottur_eik_blak_bikar_17032012_0020_web.jpgthrottur_eik_blak_bikar_17032012_0028_web.jpgthrottur_eik_blak_bikar_17032012_0032_web.jpgthrottur_eik_blak_bikar_17032012_0039_web.jpgthrottur_eik_blak_bikar_17032012_0040_web.jpgthrottur_eik_blak_bikar_17032012_0059_web.jpgthrottur_eik_blak_bikar_17032012_0052_web.jpg

 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.