Blak: Þróttur kominn í fjórða sætið
Þróttur Neskaupstað náði fjórða sætinu í 1. deild kvenna í blaki, sem veitir þátttökurétt í úrslitakeppninni, þegar liðið lagði Ými í síðasta heimaleik leiktíðarinnar á laugardag.
Þótt Þróttur ynni með þremur hrinum gegn engri var sigurinn ekki jafn öruggur og þær tölur gefa til kynna. Fyrsta hrinan var mjög spennandi en hana vann Þróttur 25-22. Þróttur hafði meiri yfirburði í annarri hrinu sem liðið vann 25-12.
Gestirnir voru yfir framan af þriðju hrinu en heimastúlkur jöfnuðu í 15-15. Þær stungu síðan af og unnu 25-18.
Í liði Þróttar Nes var Lilja Einarsdóttir atkvæðamest með 12 stig en Hulda Elma Eysteinsdóttir gerði 11 stig. Í liði Ýmis var Birna Hallsdóttir stigahæst með 4 stig.
Með sigrinum komst Þróttur upp fyrir Ými í baráttunni um fjórða sætið sem veitir þátttökurétt í úrslitakeppninni. Liðið er með fimmtán stig í fjórða sæti, stigi á eftir Þrótti Reykjavík en tveimur stigum á undan Ými. Afturelding og HK eru langefst í deildinni.
Þróttarliðið spilar gegn Eik í undanúrslitum bikarkeppninnar í Laugardalshöll á laugardag en úrslitin fara fram á sunnudag. Liðið á tvo deildarleiki eftir, gegn HK og Þrótti Reykjavík.