Blak karla: Tókst að hafa gaman af leiknum þrátt fyrir tap – Myndir
Karlalið Þróttar tókst ekki að komast í úrslit bikarkeppninnar í blaki en liðið tapaði 3-0 fyrir KA í undanúrslitum í gær. Norðfjarðarliðið átti góða spretti en hélt ekki út og missti leikinn úr höndum sér.Fyrstu tvær hrinur leiksins í gær voru áþekkar. Þróttur byrjaði betur en síðan hrökk allt í baklás. Í fyrstu hrinu komst KA ekki yfir fyrr en í stöðunni 15-16 en breytti þá líka stöðunni í 19-23. Eftir það var engin leið til baka fyrir Þrótt sem tapaði 20-25.
Í annarri hrinu var Þróttur yfir 6-11 en þá skoraði KA fjögur stig í röð. Eftir munaði ekki einu stigi fyrr en KA komst í 19-17. Þróttur tók leikhlé en það dugði ekki til, allt var frosið og KA vann 25-19.
Segja má að Norðfjarðarliðið hafi ekki mætt til leiks í þriðju hrinu, KA komst yfir 4-1, síðan 9-4 og var enn yfir í 17-8 og vann 25-10.
Eina glæta Þróttar í þeirri hrinu var áttuna stigið sem Þorsteinn Ágústsson, betur þekktur sem Turninn, skoraði með skrautlegum hætti. Hann smassaði í hávörn KA, fékk boltann ofan á kollinn og þaðan sveif hann í boga yfir varnarlausa andstæðingana og í gólfið.
„Þetta er atriði sem við höfum æft og gert áður með góðum árangri," sagði Hlöðver Hlöðversson, þjálfari Þróttar í samtali við Austurfrétt í leikslok.
„Það sem við lögðum upp fyrir leikinn gekk ekki alveg upp. Við ætluðum að spila af 110% krafti og vorum 100% á köflum en annars 80-90% og það dugar ekki í svona leik.
Þetta voru góðir sprettir á köflum en við héldum ekki dampi. Við áttum áttum góðar rispur í uppgjöfum á köflum en misstum dampinn. Við náðum ekki að pressa vel í sókninni. Menn börðust hins vegar allan tímann og ég er ánægður með það.
Við leggjum alltaf upp með að hafa gaman af leikjunum og það tókst þrátt fyrir að úrslitin yrðu þessi. Fyrirfram hefði ég sagt að þessi leikur ætti að fara í fimm hrinur og Þróttur að vinna en það gekk ekki eftir."
Valgeir Valgeirsson, einn leikmanna Þróttar, dæmdi undanúrslitaleik kvennaliða Stjörnunnar og HK í gær ásamt Sigurfinni Líndal Stefánssyni.