Íþróttir: Nær Höttur öðru sætinu?
Það er mikið undir hjá Hetti í körfuboltanum í kvöld en liðið tekur á móti Breiðabliki í síðustu umferð deildarinnar. Blaklið Þróttar tekur á móti Ými á morgun. Þá er austfirskt skíðafólk á faraldsfæti um helgina.
Hart er barist um annað sætið í 1. deild karla í körfuknattleik sem veitir heimaleikjarétt í úrslitakeppninni. Skallagrímur er með tveggja stiga forskot á Hött en heimsækir í kvöld deildarmeistarana í KFÍ á Ísafirði. Þar fer bikar á loft og búist er við fullu húsi þar sem Ísfirðingar fagna titlinum. Því má búast við að þeir leggi allt í leikinn.
Leikur Hattar gegn Breiðabliki hefst klukkan 18:30, 45 mínútum fyrr en aðrir leikir umferðarinnar. Vinni Höttur og nái Skallagrími nær liðið einnig öðru sætinu á innbyrðisviðureignum. Þriðja liðið í baráttunni um annað sætið er síðan Hamar sem heimsækir ÍG í Grindavík.
Leikurinn skiptir Blika líka málið. Þeir eru jafnir ÍA, sem mætir Ármanni, að stigum en standa verr að vígi í innbyrðisviðureignum. Þeir verða því að vinna Hött til að eiga séns á fimmta sætinu sem er hið síðasta sem veitir þátttökurétt í úrslitakeppninni.
Þróttur Neskaupstað tekur á móti Ými í 1. deild kvenna í blaki á morgun. Leikurinn hefst klukkan 13:30 í íþróttahúsinu í Neskaupstað og er frítt inn.
Þetta er síðasti heimaleikur vetrarins og skiptir miklu máli. Fjögur efstu lið deildarinnar fara í úrslitakeppnina. Þróttur er í fimmta sæti en Ýmir í því fjórða. Beint útsending verður frá leiknum á: http://www.ustream.tv/channel/throtturnesblak
Nóg er að gera hjá skíðafólki um helgina. Krakkar úr austfirsku félögunum, Skíðafélaginu í Stafdal og Skíðafélagi Fjarðabyggðar, heimsækja nágrana sína í Mývetningi heim og taka þátt í Kröflumótinu sem nú er haldið í fyrsta skipti. Mótið er ætlað 9-12 ára og verður þar ýmislegt skemmtilegt á dagskrá auk hefðbundinnar skíðakeppni.
Meistaramót 11-12 ára fer fram í Bláfjöllum og eiga Austfirðingar þátttakendur þar. Á sama tíma verður í nógu að snúast hér heima því þá fer fram Bikarmót 13-14 ára í Oddskarði og má þar búast við skemmtilegri keppni.